Heim 2. tbl. 2024 Magnús Orri í stóru  hlutverki á leiðtogaráðstefnu Special Olympics

Magnús Orri í stóru  hlutverki á leiðtogaráðstefnu Special Olympics

14 min read
Slökkt á athugasemdum við Magnús Orri í stóru  hlutverki á leiðtogaráðstefnu Special Olympics
1
184

Magnús Orri Arnarsson var aðalljósmyndari á leiðtogaráðstefnu Special Olympics í Evrópu sem fram  fór í Berlín dagana 15. – 17. október.  Special Olympics í Evrópu (SOEE) bauð Magnúsi að mynda ráðstefnuna en hann er  orðinn vel kynntur innan samtakanna fyrir vönduð vinnubrögð verkefna fyrir Special Olympics á Íslandi.  Hann keppti á heimsleikum Special Olympics í Abu Dhabi 2019 og vann jafnframt kynningarefni um íslenska hópinn. Í kjölfar þess varð  Magnús Orri liðsmaður sjónvarpsþáttanna ,,Með Okkar Augum” og 1. maí 2024 var hann sem ljósmyndari á forsíðu miðla hjá Special Olympics.

Á ráðstefnunni í Berlín naut Magnús Orri aðstoðar Jóns Aðalsteins Bergsveinssonar, kynningarfulltrúa Ungmennafélags Íslands. Þeirra samstarfsverkefni fékk heitið ,,Unified Media Team Special Olympics Iceland” og það er nýjung í sögu Special Olympics, ekki aðeins á Íslandi, heldur samtakanna á heimsvísu. Með ,,unified” er horft til samstarfs fatlaðra og ófatlaðra og mikil áhersla er t.d. á ,,unified sport” sem Ísland hefur tekið þátt í og ,,unified schools” sem er nýtt verkefni á Íslandi.

Mjög vel var látið af vinnu Magnúsar á ráðstefnunni. Hann hlaut silfurmerki Special Olympics og viðurkenningar fyrir þátttökuna. Auk þess hélt hann hjartnæmt ávarp við slit ráðstefnunnar þar sem hann sagði mikilvægt að gefa fólki með fötlun tækifæri. Hann hafi nýtt þau sem hann hafi fengið og þau skilað honum til Berlínar.

Magnús á sviðinu

Samvinnan í Berlín 

Um 120 fulltruar frá Special Olympics samtökum í Evrópulöndum tóku þátt í leiðtogaráðstefnunni. 

Fulltrúar Íslands á leiðtogaráðstefnunni og þátttakendur í dagskrá voru Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi og Jóhann Arnarson, varaformaður Íþróttasambands fatlaðra (ÍF) og stjórnarmaður í Special Olympics á Íslandi. Ísland hefur átt afar farsælt samstarf við mörg Evrópulönd þegar kemur að verkefnum Special Olympics á Íslandi og einstaka aðildarfélaga. 

Ungmennaráð Special Olympics í Evrópu setti sterkan svip á ráðstefnuna. Það er skipað fólki sem keppt hefur á heimsleikum Special Olympics. Þau höfðu margt fram að færa og var annar kynnir ráðstefnunnar úr þeirra hópi.  

Dagskrá ráðstefnunnar var afar fjölbreytt en megináhersla var á stöðu mála  í  framhaldi af heimsfaraldri,  áhrif á þátttöku í íþróttastarfi og auk vangaveltna um framtíðina. Fulltrúar erlendra fjölmiðla á borð við Sky, BBC og samtök evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) tóku þátt í pallborði þar sem rætt var samstarf skipuleggjenda íþróttamóta við fjölmiðla og gildi sýnileika fyrir íþróttir fólks með fötlun. Fram kom í máli allra að við miðlun efnis sé mikilvægast að segja sögur af fólki og nota tækni frásagnarlistarinnar (e. storytelling).  Einnig var rætt um aðkomu fjölmiðla að heimsleikum Special Olympics í Berlín og það hversu sýnileikinn er háður góðu samstarfi við fjölmiðla. Rætt var sérstaklega um gildi þess að draga fram jákvæð áhrif og þau tækifæri sem geta skapast gegnum íþróttastarf.

 Unnið í hópum

Á ráðstefnunni voru settir upp vinnuhópar sem tóku fyrir ákveðin málefni sem þátttökuþjóðirnar eiga sameiginlegt s.s.samstarf við stjórnvöld, samningagerð og viðhald samninga við styrktaraðila, mismunandi aðferðir við nýliðun og áhrif markaðssetning og sýnileika á heildarstarfið á landsvísu. 

Margir þættir eru misjafnir eftir löndum. Sérstaklega er samstarfið við stjórnvöld í hverju landi með mismunandi hætti. Í sumum löndum byggist samstarfið upp við skóla frekar en iþróttafélög. Rauður þráður er þó íþróttafólkið og uppbygging þeirra tækifæra sem geta skapast fyrir þátttakendur.

Heimsleikar Special Olympics 2025

Næstu Heimsleikar Special Olympics á Ítalíu verða í Túrín í mars árið 2025. Á ráðstefnunni voru leikarnir kynntir en fimm keppendur frá Íslandi taka þátt í þremur greinum,  listhlaupi á skautum, unified dansi og  skíðum. 

Áhugavert verkefni var kynnt á leiðtogaráðstefnunni en það er ,,unified” blakmót í Póllandi sem verður haldið 2025.  Þar keppa saman í liði þátttakendur með fötlun og ófatlaðir og skipuleggjandi er Vanja Grbic frá Serbíu sem er sendiherra fyrir blakíþróttina hjá SOEE. Hann er vel þekktur á Íslandi en hann kom til Íslands árið 2017 og hélt blaknámskeið á Húsavík í samstarfi við íþróttafélagið Völsung, Blaksamband Íslands og Special Olympics á Íslandi.

Ráðstefnugestir voru sammála um mikilvægi þess að efla samstarf sín á milli og gleðjast yfir góðum árangri á mörgum sviðum. Á sama tíma er staðan víða krefjandi, börn og ungmenni með fötlun sitja ekki við sama borð í þátttökuríkjunum og starfsemi Special Olympics tengist mjög flóknum verkefnum í nokkrum löndum. Samtökin hafa unnið markvisst að verkefnum fyrir flóttafólk og innflytjendur og mörg verkefni hafa reynst gríðarlega þýðingarmikil fyrir þann hóp.. 

Þetta eru Special Olympics

Samtökin Special Olympics voru stofnuð árið 1968. Stofnandi þeirra og forystukona frá upphafi var Eunice Kennedy Shriver, systir John. F. Kennedy, forseta Bandaríkjanna. Hvatinn að stofnun samtakanna var Rose Kennedy, systir þeirra Johns og Eunice, en hún var með þröskaröskun. 

Eunice stýrði samtökunum frá upphafi allt þar til sonur hennar, Timothy Kennedy Shriver tók við. Hann stýrir þeim enn í dag. 

Upphaflega buðu Special Olympics upp á sundæfingar í garðinum við heimili Eunice Kennedy. Nú eru í samtökunum fimm milljónir einstaklinga um alla heim. Þetta eru orðin alþjóðasamtök sem láta sig varða ekki aðeins íþróttir, heldur daglegt líf og lífsgæði, menntamál, heilbrigðis, vinnumarkaðs og mannréttindamál.

Í dag leggur Special Olympics áherslu á inngildingu. Unnið er að því í gegnum ,,unified”  verkefni þar sem fólk með fötlun og án fötlunar æfir og keppir saman eða vinnu að ákveðnum verkefnum saman.

Special Olympics byggja á skýru skipuriti sem Evrópulönd þurfa að fylgja. Gerð er krafa um sjálfstæða  starfsemi og að vörumerki Special Olympics sé skýrt á öllum viðburðum og verkefnum sem tengjast samtökunum. Ísland og önnur Norðurlönd hafa leitað eftir undanþágu á lögum og reglum Special Olympics og hafa aðlagað starf Special Olympics að heildarstarfi um íþróttir fatlaðra. 

Íþróttasamband fatlaðra og Special Olympics

Íþróttasamband fatlaðra er umsjónaraðili Special Olympics á Íslandi og hefur starfið verið tengt starfi ÍF frá 1989 í stað sjálfstæðrar skrifstofa á Íslandi. Special Olympics samtökin hafa auk þess veitt IF sem umsjónaraðila ákveðnar undantekningar á reglum SOI með skilyrðum um skil á árlegum ítarlegum skýrslum um framgang og stöðu verkefna. Ísland hefur tekið þátt í ýmsum sérverkefnum sem talin eru geta haft áhrif á framþróun Íþrótta fatlaðra almennt og virka þátttöku. 

 Norðurlöndunum hefur gengið misvel að þróa starfið og umsjónaraðilar hafa misst leyfið af ýmsum ástæðum. Á þessu ári er Special Olympics með starfsemi innan eða í samstarfi við íþróttasambönd fatlaðra á öllum norðurlöndunum. 

Sækja skyldar greinar
Load More By Anna Karólína Vilhjálmsdóttir
Load More In 2. tbl. 2024
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Special Olympics hópurinn klár fyrir Kraftlyftingamótið 15. nóvember

Dagana 11-16 Nóvember næstkomandi verður heimsmeistaramót í kraftlyftingum haldi…