IPC Alþjóða Ólympíusamband fatlaðra og undirbúningsnefnd LA28 leikanna (Ólympíuleika og Paralympics) hefur tilkynnt að klifur verður á meðal keppnisgreina á leikunum 2028. Eins og áður hefur komið fram fara leikarnir fram í Los Angeles í Bandaríkjunum. Þar með verður klifur tuttugasta og þriðja (23) grein leikanna en áður höfðu IPC og LA28 samþykkt 22 keppnisgreinar.
Klifur verður því í fyrsta sinn á meðal greina árið 2028 en alls 33 íþróttagreinar sóttu um keppnisrétt á leikunum og nú hafa 23 þeirra verið samþykktar. Andrew Parsons forseti IPC sagði klifur spennandi íþrótt: „Klifur mun laða að nýja áhorfendur á Paralympics og við þurfum ekki nema að fylgjast með hvaða áhrif klifur hefur haft á Ólympíuleikana til þess að skilja jákvæðu áhrifin af því að bæta við þessari íþróttagrein.“
Á síðustu leikum hefur verið nokkuð um brautryðjendur en í Ríó 2016 var kanó-róður og þríþraut á boðstólunum í fyrsta sinn og í Tokyo 2020 (2021) var keppt í fyrsta sinn í badminton og taekwondo. Greinum fjölgar því á Paralympics sem er einkar jákvætt og gerir þannig fleira íþróttafólki kleyft að komast á hið stóra svið Paralympics.
„Þetta eru jákvæð tíðindi og virkilega gaman að sjá nýjar greinar koma inn á Paralympics. Á Íslandi hafa sund og frjálsar verið kjölfestugreinar hjá Íþróttasambandi fatlaðra og félögum þess en við hjá ÍF fögnum því þegar fleiri greinar komast að á jafn stóru sviði. Slíkt eykur fjölbreytni í íþróttaflórunni og er líklegra til þess að sannfæra marga um að vera virkir og jafnvel taka skrefið lengra og setja sér háleit markmið. Það komast vissulega ekki allir á Paralympics nema þeir fremstu en þetta þýðir þó að heimsmótaraðir, álfumót og fleirir stórmót eru í farvatninu fyrir klifur því hver og ein íþróttagrein þarf að vera í mjög sterkum farvegi og með gott alþjóðlegt skipulag til þess að komast inn á Ólympíuleika eða Paralympics,“ sagði Jón Björn Ólafsson sem verður aðalfararstjóri Íslands á Paralympics í París 2024.