Ingeborg Eide Garðarsdóttir hefur lokið keppni á Paralympics en hún hafnaði í kvöld í 9. sæti í kúluvarpi í flokki T37. Ingeborg missti naumlega af úrslitum og fékk því aðeins þrjú köst í keppninni þar sem hennar lengast kast var 9,36 metrar.
Ingeborg var því að ljúka sínum fyrstu Paralympics en hún hefur verið í mikilli framför síðustu misseri. Íslandsmet hennar í greinni er 9,83 metrar svo hún var aðeins frá sínu besta kasti. Hún sagði við RÚV í kvöld eftir keppni að vissulega væri niðurstaðan smá sár en nú væri bara vel þegin hvíld framundan og að henni lokinni væri tímabært að líta fram á veginn og tók ekki fyrir það að LA Paralympics 2028 væru í kortunum.
Til hamingju með fyrstu Paralympics Ingeborg Eide!