Heim 2. tbl. 2024 Bláa Lónið og Íþróttasamband fatlaðra framlengja öflugu samstarfi fram til 2026

Bláa Lónið og Íþróttasamband fatlaðra framlengja öflugu samstarfi fram til 2026

3 min read
Slökkt á athugasemdum við Bláa Lónið og Íþróttasamband fatlaðra framlengja öflugu samstarfi fram til 2026
0
359

Íþróttasamband fatlaðra og Bláa Lónið hafa framlengt samstarfs- og styrktarsamningi sínum til ársins 2026. Bláa Lónið hefur verið einn fremsti samstarfsaðili Íþróttasambands fatlaðra í rúman áratug. Þórður Árni Hjaltested, formaður ÍF, og Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, undirrituðu nýja samninginn í Bláa Lóninu í Svartsengi á dögunum.  

„Samstarfsaðilar á borð við Bláa Lónið skipta sköpum fyrir starfsemi eins og hjá okkur á Íþróttasambandi fatlaðra. Lýðheilsa einstaklinga með fatlanir er þjóðþrifamál og því mikilvægt að fólk með fatlanir stundi heilbrigðan lífsstíl. Íslenskt afreksfólk úr röðum fatlaðra hefur notið myndarlegs stuðnings fólks og fyrirtækja í rúma fjóra áratugi og árangurinn hefur ekki látið á sér standa en alls hafa íslenskir íþróttamenn unnið til 98 verðlauna á Paralympics,“ sagði Þórður Árni Hjaltested við tilefnið. 

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, tók í sama streng. „Íþróttasamband fatlaðra vinnur ómetanlegt starf á sínu sviði. Við erum að vonum ánægð með samstarfið enda kappkostum við að styðja við og styrkja samfélagið okkar, einkum á sviði lýðheilsumála. Við erum þó fyrst og fremst stolt af íþróttafólki sambandsins sem hefur vakið athygli fyrir afburðaárangur. Það er okkur bæði ljúft og skylt að styðja við bakið á þeim, sérstaklega nú í aðdraganda Ólympíuleika sem hefjast í lok þessa mánaðar. Við óskum keppendum til hamingju með afburðaárangur og óskum þeim velfarnaðar í París.“

Myndir/JBÓ: Þórður Árni Hjaltested formaður ÍF, Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa Lónsins og Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs ÍF ásam íþróttafólkinu Sonju Sigurðardóttur og Róberti Ísaki Jónssyni.

Sækja skyldar greinar
Load More By Jón Björn Ólafsson
Load More In 2. tbl. 2024
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Ingeborg hafnaði í 9. sæti með 9,36 metra

Ingeborg Eide Garðarsdóttir hefur lokið keppni á Paralympics en hún hafnaði í kvöld í 9. s…