Heim 2. tbl 2021 Ávarp formanns ÍF

Ávarp formanns ÍF

7 min read
Slökkt á athugasemdum við Ávarp formanns ÍF
0
799

Ágæti lesandi! 

Gleðilegt sumar! Við fögnum því nú að geta haldið Íslandsmót í öllum íþróttagreinum án þess að hafa miklar áhyggjur af COVID-19. Íslandsmót í boccia var haldið á Akureyri um mánaðarmótin apríl – maí og var það jafnframt Hængsmót. Ég vil hér þakka Hængsmönnum fyrir frábært mót og flotta umgjörð, en þeir sáu um allan undirbúning og framkvæmd mótsins í samstarfi við boccianefnd ÍF.  

Búið er að halda Íslandsmót í sundi í 50m laug í samstarfi við SSÍ sem og innanhúsmótið í frjálsum íþróttum. Nú um síðustu helgi var síðan Íslandsmót í kraftlyftingum, en það var haldið á Selfossi í samstarfi við KRAFT. Við það tækifæri var undirritaður samstarfssamningur milli ÍF og KRAFT sem felur í sér að KRAFT sér um framkvæmd Íslandsmóta í kraftlyftingum í samstarfi við ÍF. 

Í mars mánuði tók Hilmar Snær Örvarsson þátt í Vetrar-Paralympics í Beijing, Kína. Hilmar stóð sig frábærlega en hann varð í 5. sæti í svigi og var Íslandi til sóma. Ég vil hér þakka þjálfara hans Þórði Hjörleifssyni og Einari Bjarnasyni aðstoðarþjálfara og nefndarmanni í vetraríþróttanefnd ÍF fyrir frábæra vinnu með Hilmari síðastliðin ár. 

Á þingi ÍF sem haldið var í september 2021 var samþykkt ný afreksstefna sambandsins til 2028 og framkvæmdaáætlun til 2024 eða fram yfir Paralympics í París. Í kjölfarið ákvað stjórn ÍF að hverfa frá því skipulagi að vera með starfandi yfirmenn landsliðsmála, sem voru tveir fram yfir Paralympics 2021 (Tokyo 2020) og í stað þess ráða landsliðsþjálfara í sund og frjálsar íþróttir í hlutastarf og í fámennari íþróttagreinum er það formaður viðkomandi íþróttanefndar ÍF eða félagsþjálfari viðkomandi afreksmanns sem fer með ábyrgð á eftirliti með þjálfun viðkomandi fyrir hönd ÍF. 

Afrekshópur ÍF er og verður á ferð og flugi takandi þátt í Grand Prix mótum IPC (Alþjóða Ólympíuhreyfing fatlaðra) og hluti af afrekshóp ÍF í sundi sem náð hefur lágmörkum mun taka þátt í HM IPC sem fram fer á eyjunni Madeira, Portúgal 12. – 19. júní næstkomandi. Hópurinn ferðast til Madeira 8. júní.  

Þegar þetta er skrifað er allt íþróttastarf í landinu komið í fullan gang. Við þurfum áfram að gæta að okkur, veiran er enn á meðal okkar og því áfram gæta að fjarlægð milli manna og muna að þvo okkur reglulega um hendur sem og spritta okkur. Keppendur á vegum ÍF munu sérstaklega hafa þetta í huga í keppnisferðum erlendis, en enn eru takmarkandi reglur í gildi í mörgum löndum heimsins.  

ÍF endurnýjaði samninga við afreksíþróttafólk sitt nú nýverið, en á síðasta ári voru 16 íþróttamenn á styrktarsamning og skilgreindir í afreksíþróttahóp ÍF. Með samningum þessum er útlistað og skráð hver eru réttindi og skyldur íþróttamannanna við ÍF, íþróttafélagið sitt og ÍSÍ. Fjárhagslegur bakhjarl ÍF í gerð þessara samninga er Afreksíþróttasjóður ÍSÍ og samstarfsaðilar ÍF.   

ÍF gefur út tímaritið HVATA tvisvar á ári á rafrænu formi. Með rafrænu útgáfunni gefst kostur á að hafa aukið myndefni og jafnframt hreyfimyndir (video) sem nú eru birtar á „YouTube“ og „Instagram“ síðu ÍF. 

Það er von mín og trú að við séum komin á beinu brautina og að mestu laus við COVID-19 frá Íslandi. Óvissan er með umheiminn og hversu langan tíma það mun taka fyrir heiminn að losa sig við þessa óværu, en það er sagt nánast ómögulegt, en það má alltaf vona, gerum það.  Gleðilegt íþróttasumar. 

Þórður Árni Hjaltested, formaður ÍF 

Sækja skyldar greinar
Load More By Jón Björn Ólafsson
Load More In 2. tbl 2021
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Afturelding af stað með verkefnið „Fótbolti fyrir alla“

Ungmennafélagið Afturelding hefur farið af stað með verkefnið „Fótbolti fyrir alla“ sem er…