
Íþróttasamband fatlaðra og Arion banki hafa framlengt samstarf sitt til næstu fjögurra ára eða til og með Paralympics í Los Angeles 2028. Þar með verður framhald á næstum hálfrar aldar löngu samstarfi sem líkast til er eitt af þeim eldri innan íslensku íþróttahreyfingarinnar.
Það voru Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka og Þórður Árni Hjaltested formaður Íþróttasambands fatlaðra sem skrifuðu undir nýja samninginn. Viðstödd voru einnig þau Iða Brá Benediktsdóttir aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs og Jón Björn Ólafsson framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs Íþróttasambands fatlaðra.
„Við höfum verið stoltur bakhjarl Íþróttasambands fatlaðra um áratuga skeið eða allt frá því að forveri okkar, Búnaðarbankinn, hóf að styðja við starf sambandsins árið 1979,“ sagði Benedikt Gíslason af þessu tilefni. „Það er virkilega ánægjulegt að framlengja það áratugalanga samstarf og fylgjast með gróskunni í starfi hreyfingarinnar og þeim frábæru íþróttamönnum sem þar hafa komið upp á síðustu árum.“
„Arion banki hefur jafnframt verið viðskiptabanki Íþróttasambands fatlaðra allt því að gamli Búnaðarbankinn var og hét,“ sagði Þórður Árni formaður ÍF við undirritun samningsins. „Á þessum tíma og með fulltyngi bankans hefur íþróttafólk úr röðum fatlaðra borið hróður Íslands víða um lönd og náð undraverðum árangri. Hvort sem um afreksíþróttir eða lýðheilsu er að ræða hefur sambandinu tekist að gera vel í áranna rás einmitt þökk sé öflugum bakhjörlum sem hafa ekki einvörðungu sýnt starfsemi okkar stuðning heldur skilning líka og það er afar mikilvægt fyrir okkar starfsemi.“
„Það eru verðug verkefni framundan á árinu hjá íslensku íþróttafólki; heimsmeistaramót í sundi, frjálsum og í bogfimi sem öll fara fram í Asíu svo dæmi séu tekin. Einnig er á döfinni Norðurlandamót í boccia sem fram fer í Laugardalshöll í maímánuði svo verkefnastaðan er góð og nóg um að vera á komandi misserum.“
Mynd/ f.v. Benedikt Gíslason, Iða Brá Benediktsdóttir, Þórður Árni Hjaltested og Jón Björn Ólafsson.
