Íþróttasamband fatlaðra afhenti Arion banka nýverið Parísarkyndilinn til varðveislu en hann var framleiddur í afar takmörkuðu upplagi og notaður við hið margfræga kyndilhlaup í aðdraganda Ólympíuleikanna og Paralympics.
Það voru Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka og Iða Brá Benediktsdóttir aðstoðarbankastjóri sem veittu kyndlinum mótttöku fyrir hönd bankans frá Þórði Árna Hjaltested formanni ÍF og Ólafi Magnússyni framkvæmdastjóra fjármála- og afrekssviðs ÍF.
Samstarf ÍF og Arion banka teygir sig aftur til upphafs Íþróttasambands fatlaðra þegar Búnaðarbankinn var og hét. Búnaðarbankinn var fyrsti viðskiptabanki ÍF og allar götur síðan hefur sambandið átt í farsælu samstarfi við bankann. Af því tilefni ákvað stjórn ÍF að afhenda Arion banka kyndilinn til varðveislu til allrar frambúðar.
„Það er ánægjulegt að geta afhent Arion banka þennan merka kyndil en hann er tákn um þær fórnir sem okkar öfluga íþróttafólk hefur fært til þess að vera öflugir fulltrúar Íslands á fremsta sviði íþróttanna. Við hjá Íþróttasambandi fatlaðra höfum í áratuga rás verið einstaklega ánægð með samstarfið við bankann og það er okkar íþróttafólki allt að vita til þess að það séu einstaklingar og öflug fyrirtæki sem eru að liðsinna þeim í baráttunni á meðal þeirra bestu,“ sagði Þórður Árni Hjaltested formaður ÍF við tilefnið.
Sjá einnig frétt á vef Arion banka
Mynd: Ragnheiður Arngríms/ Frá vinstri Þórður Árni Hjaltested, Iða Brá Benediktsdóttir, Benedikt Gíslason og Ólafur Magnússon.