Dagurinn er haldinn í tengslum við alþjóðadag fatlaðra sem er 3. desember ár hvert.
Á heimsvísu eru íþróttir fatlaðra nú kynntar með yfirheitinu PARASPORT og undir því yfirheiti eru allar íþróttir sem keppt er í á Paralympics eða Ólympíumóti fatlaðra svo sem Para-swimming (sund), Para-athletics (frjálsar), Para-cycling (hjólreiðar), Para-archery (bogfimi) en þetta eru þær íþróttagreinar sem við eigum möguleika á að vera með þátttakendur í á næstu Paralympics sem fram fara í París næsta sumar. Orðið PARA í þessu samhengi er komið frá orðinu PARALELL eða að vera á pari við eða samhliða. Í þessu samhengi er IPC Alþjóðaíþróttahreyfing fatlaðra á pari við IOC sem er Alþjóða Ólympíuhreyfingin eða með öðrum orðum íþróttir fatlaðra eru á pari við allar íþróttir sem stundaðar eru á heimsvísu.
Paralympic dagurinn er nú sem hingað til helgaður kynningu á íþróttagreinum sem stundaðar eru innan vébanda Íþróttasambands fatlaðra (ÍF). Íþróttanefndir ÍF, aðildarfélög ÍF og samstarfsaðilar sambandsins koma saman í frjálsíþróttahúsinu í Laugardal, sem tengt er Laugardalshöll, til að kynna íþróttagreinar sem í boði eru og starfsemi íþróttafélaga fatlaðra. Samstarfsaðilar ÍF verða með kynningar og boðið er upp á veitingar í boði Toyota á Íslandi. Einnig verða drykkir í boði Coke á Íslandi.
Allir með! Markmiðið með deginum er að auka þátttöku í íþróttum fatlaðra. Markhópurinn eru fatlaðir einstaklingar og eru fjölskyldur fatlaðra barna og ungmenna sérstaklega hvattar til að koma á staðinn til að kynna sér íþróttir sem í boði eru og átta sig á framboðinu, eða fjölbreytileikanum sem í boði er hér á landi.
Mikilvægi hreyfingar er mikil og ekki síst fyrir einstaklinga með fötlun sem geta með markvissri þátttöku í íþróttum aukið lífsgæði og getu til þátttöku í samfélaginu.
Verið öll velkomin á Paralympic dag ÍF laugardaginn 2. desember milli kl. 13 og 15 í frjálsíþróttahúsið tengt Laugardalshöll.
Með kveðju,
Þórður Árni Hjaltested, formaður ÍF