Heim 2. tbl. 2024 Vel heppnaðar færnibúðir Blindrafélagsins

Vel heppnaðar færnibúðir Blindrafélagsins

9 min read
Slökkt á athugasemdum við Vel heppnaðar færnibúðir Blindrafélagsins
0
67

Dagana 10. til 13. október stóðu Blindarfélagið og Íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík (HR) fyrir færnibúðum fyrir ungt fólk með sjónskerðingu. Að búðunum komu einnig Íþróttasamband fatlaðra, Sjónstöðin, Reykjadalur og Háskólinn í Brockport sem staðsettur er í New York fylki í Bandaríkjunum.

Helgin hófst á fimmtudeginum með fyrirlestri í HR þar sem sérfræðingar frá Brockport héldu kynningu á reynslu sinni að halda svipaðar færnibúðir víða um heiminn. Um 40 manns mættu á fyrirlesturinn og sköpuðust góðar og gagnlegar umræður um hvernig hægt er að standa að því að kenna fólki með sjónskerðingar nýja hreyfifærni.


Markmið búðanna var auka hreyfifærni og öryggi þátttakendanna til að stunda íþróttir. Til að ná þessum markmiðum voru um 15 íþróttafræðinemendur úr íþróttafræði í HR og Brockport á búðunum til að aðstoða og til að vera fyrirmyndir fyrir þátttakendur ásamt fimm sérfræðingum frá HR og Bandaríkjunum. Um 20 einstaklingar með sjónskerðingar voru skráðir til þátttöku og mættu þau um klukkan eitt á föstudeginum upp í Reykjadal þar sem allir gistu og mikið af dagskránni fór fram.

Til að byrja með voru flestir feimnir og það tók smá tíma fyrir alla til að kynnast og komast vel af stað í hreyfingu og leiki. En þegar allir voru búnir að fá þjálfun í fótbolta frá Herði sem kom á vegum KSÍ og fara í trommuþolþjálfun á hjá Kaisu voru langflestir tilbúnir í hvað sem er. Eftir vel útilátið kaffi var svo farið í laugina þar sem fólk ýmist hvíldi sig í pottinum eða tókust á við áskoranir í lauginn með Inga Þór. Eftir góðan kvöldmat var svo boðið upp á frjálsa hreyfingu þar sem þátttakendur gátu valið sér hvað þeir vildu gera með háskólanemendum.

Laugardagurinn byrjaði svo á því að hluti hópsins fór á hestbak hjá Laxness hestaferðum og fóru allir þátttakendur á bak og margir riðu sjálfir um svæðið og aðrir voru teymdir um. Það fannst öllum mjög gaman og hefðu viljað vera lengur. Aðrir voru á sama tíma í allskonar æfingum sem reyndu á jafnvægi, samhæfingu og almenna hreyfifærni. Þessar æfingar voru margar hverjar hluti af hreyfifærnirannsókn sem HR og Brocport vinna saman samhliða búðunum. Síðar um morguninn skiptu hóparnir svo um hlutverk þannig að allir gátu prufað allt saman.

Að loknum hádegisverði var farið með rútu í frjálsíþróttaaðstöðu Reykjavíkurborgar. Þar gátu þátttakendur tekið þátt í frjálsum íþróttum með Melkorku og Sólrúnu sem kenndu öllum að hlaupa, kasta og stökkva. Svo var farið í judo þar sem tekið var vel á því hjá Arnari Má Jónssyni og syni hans. Að lokum var farið í Parkour hjá honum Davíð þar sem farið var í gegnum hvernig er best að lenda eftir stökk eða föll. Eftir smá hressingu var svo haldið í Klifurhúsið þar sem allir vildu fengu að spreyta sig á klifurveggnum.

Í Reykjadal beið svo kvölmaturinn. Að honum loknum höfðu ekki allir orku í mikið meira, en sumir fóru í fótbolta eða hjóluðu á tveggja manna hjóli eða fóru og syntu smá. En margir lognuðust bara snemma út af.

Sunnudagsmorguninn byrjaði svo æfingum í Showdown hjá hluta af hópnum á meðan aðrir fóru í stöðvaþjálfun og svitnuðu vel á meðan aðrir fóru að æfa sig í hinum ýmsu hreyfingum.

Að loknum hádegisverði var svo efnt til alþjóðlegs móts í showdown þar sem þátttakendurnir voru í einu liði og kepptu við lið sem var samansett af þjálfurunum, systkunum og foreldrum þátttakendanna. Það var aldrei spurning um heildarúrslitin þó svo að flestar viðureignir hafi verið jafnar þá fór lið þátttakenda með öruggan sigur í lokin.

Þegar líða fór að heimferð fóru allir að verða mjög virkir og ljóst að fæstum langaði heim. Það voru teknir fótboltaleikir með þátttakendum og háskólanemunum, margar æsilegar keppnir í showdown fóru fram, ýmist á milli þátttakendanna sjálfra eða við þjálfara eða fjölskyldudumeðlimi. Sumir skelltu sér aftur í trommufimi til Kaisu og aðrir fóru að hjóla í góða veðrinu eða bara að spjalla um helgina.

Það var mat sérfræðinganna frá Brockport að þetta hafi verið einstaklega vel heppnuð helgi og það var ýmislegt sem prófað var í íslensku færnibúðunum sem verður tekið upp á stóru færnibúðunum sem haldnar eru ár hvert í júlí.

Sækja skyldar greinar
Load More By Jón Björn Ólafsson
Load More In 2. tbl. 2024
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Helgi Þór hlaut Hvataverðlaun ÍF 2024

Helgi Þór Gunnarsson formaður borðtennisnefndar ÍF hlýtur Hvataverðlaunin 2024. Verðlaunin…