Íslandsmót ÍF í boccia einstaklingskeppni 2024 fer fram í Laugardalshöll og er gert ráð fyrir keppendum víða að af landinu.
Íslandsmót í sveitakeppni fer fram að vori og einstaklingskeppni að hausti og þessi mót eru fjölmennustu Íslandsmót á vegum ÍF .
Bocciamót ÍF eru byggð upp á deildakeppni þar sem keppendur geta unnið sig upp um deild án tillits til fötlunar.
Því geta efstu þrír í hverri deild verið með mismunandi fötlun.
Það gildir þó ekki um rennuflokk og BC1-4 sem eru sérstakir keppnisflokkar.
Umsjónaraðili mótsins í samstarfi við ÍF er Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík, ÍFR.
ÍFR átti 50 ára afmæli á árinu og félagið tók að sér umsjón Íslandsmótsins í haust í tilefni þessa merka áfanga.
Íþróttahús IFR Hátúni 14 er eina íþróttahúsið í eigu íþróttafélags fatlaðra á Íslandi og þar fer fram gróskumikið starf.