Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra í einliða leik í boccia var sett í Síkinu á Sauðárkróki í morgun. Um 200 keppendur eru mættir til leiks á Sauðárkróki en það er Íþróttafélagið Gróska sem er framkvæmdaraðili mótsins.
Eins og öllum góðum mótum sæmir þá eru þau hvorki fugl né fiskur án öflugra sjálfboðaliða en félagar í Kiwanisklúbbnum Drangey eru margir hverjir mættir við dómgæslu og ritarastörf ásamt fleiri aðilum í Skagafirði til þess að tryggja góða umgjörð við mótið.
Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Skagafjarðar bauð gesti velkomna við setningarathöfn mótsins í morgun. Sagði hann ómetanlegt að hafa á að skipa öflugum félögum á borð við Grósku innan íþróttahreyfingarinnar og bætti við að starfsemi félagsins styðji afar vel við verkefnið Heilsueflandi samfélag sem Skagafjörður tekur þátt í. Í því verkefni sé unnið markvisst að því með heildrænni nálgun að bæta heilsu, líðan, lífsgæði og færni fólks á öllum æviskeiðum.
Það var svo Linda Kristinsdóttir stjórnarkona hjá Íþróttasambandi fatlaðra sem setti mótið.
Í dag laugardag og á morgun sunnudag verður keppt til úrslita í deildum, rennuflokki og flokki BC 1-4 og því þrír Íslandsmeistarar krýndir um helgina. Lokahóf mótsins fer svo fram í Miðgarði á sunnudagskvöld og þar verður fátt annað en fjör fram eftir kvöldi.
Myndir/ JBÓ – Frá setningu mótsins í morgun. Á efstu mynd eru þau Sigfús Ingi sveitarstjóri og Linda stjórnarkona hjá ÍF.