Stefanía með tvö ný met!
Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fór fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal um síðustu helgi þar sem stöllurnar Ingeborg Eide Garðarsdóttir og Stefanía Daney Guðmundsdóttir settu báðar ný Íslandsmet. Ingeborg stórbætti þar Íslandsmetið í kúluvarpi í flokki F37.
Stefanía Daney setti nýtt Íslandsmet í 60m hlaupi í flokki T20 (þroskahamlaðir) þegar hún kom í mark á tímanum 8,38 sek. Þá setti hún einnig nýtt innanhúsmet í langstökki þegar hún stökk 5,18 metra en það er einnig Íslandsmetið hennar utanhúss.
Ingeborg Eide átti magnaða kastseríu í kúluvarpinu í flokki F37 (hreyfihamlaðir) en Ingeborg keppir fyrir Ármann og bauð upp á þessa myndarlegu seríu: 9,00-9,14-8,84-9,19-9,35 og í síðasta kasti 9,73m! Með þessum árangri er Ingeborg að kasta vel yfir lágmarki fyrir Paralympics í París sem er 8,00 metrar en hún er einnig að kasta yfir svokölluðu „High performance“ lágmarki sem er 9,49 metrar!
Þess má einnig geta að Stefanía Daney á fjölda stökka yfir lágmarki fyrir París en lágmörkin eru 4,50 metrar og „High performance“ lágmarkið er 5,38 metrar en Íslandsmet Stefaníu er eins og áður greinir 5,18 metrar.
Bæði Stefanía og Ingeborg eru í marsmánuði á leið til Ítalíu þar sem alþjóða mótaröð IPC fer fram og munu þær báðar freista þess að gera enn betur í baráttunni fyrir Ísland um laus sæti í frjálsíþróttakeppninni í París á Paralympics sem fram fara í ágúst og september síðar á þessu ári.
Hér má nálgast viðtal við Ingeborgu sem RÚV tók við hana í mótslok
Mynd/ Efri mynd úr einkasafni – Ingeborg Eide Garðarsdóttir kúluvarpari var að vonum kát með nýtt og stórglæsilegt Íslandsmet í kúluvarpi. Neðri mynd: Hlín Guðmundsdóttir