
Ingeborg Eide Garðarsdóttir vann til bronsverðlauna á Olomouc WPA Women‘s Grand Prix sem fór fram í Tékklandi um helgina en mótið markar tímamót í sögu frjálsíþrótta sem fyrsta kvennamótið í Grand Prix mótaröð IPC.

Ingeborg keppti í kúluvarpi í flokki F37 með kast upp á 9,52 metra. Köstin hennar voru eftirfarandi:
X – 8,78 – 8,72 – 8,53 – 9,26 – 9,52
Simone Kruger náði gullinu með kast upp á 12,14 metra og heimakonan Eva Berna tók silfur með 10,50 metra kast.
Ingeborg sagði tilfinninguna fyrir mótið vera góða og að það væri frábært að mót eins og þetta væri komið á dagskrá til að ýta undir keppni fatlaðra kvenna sem er einungir þriðjungur keppenda á öðrum mótum. Hún bætir við að undirbúningurinn hafi gengið mun betur en fyrir síðasta mót í París en að hún sé þó ekki að reyna að toppa strax svo undirbúningurinn er eftir því.
„Takk fyrir að fylgjast með og fyrir hvatninguna. Vonandi förum við að sjá fleiri stelpur í frjálsum“ segir Ingeborg.
ÍF óskar Ingeborg innilega til hamingju með árangurinn og sögulega þátttöku í mótinu.
