Heim 1. tbl. 2024 Ingeborg Eide með nýtt og glæsilegt Íslandsmet á Ítalíu

Ingeborg Eide með nýtt og glæsilegt Íslandsmet á Ítalíu

4 min read
Slökkt á athugasemdum við Ingeborg Eide með nýtt og glæsilegt Íslandsmet á Ítalíu
0
901

Frjálsíþróttakonan Ingeborg Eide Garðarsdóttir hefur nýlokið keppni á Jesolo 2024 Grand Prix – Italian Open Championships. Ingeborg fann sig vel í sólinni á Ítalíu og bætti Íslandsmetið sitt í kúluvarpi í flokki F37 en þar bætti hún met sem hún setti nýverið á meistaramóti Íslands í frjálsum innanhúss.

Á meistaramótinu hér heima varpaði hún kúlunni 9,73 metra en á Ítalíu bætti hún um betur þar sem hún í fimmta og næstsíðustu tilraun varpaði kúlunni 9,83 metra og bætti metið sitt um heila 10 sentimetra! Magnaður árangur og ljóst að spennandi sumar er í vændum hjá þessari öflugu frjálsíþróttakonu. Með árangri sínum hlaut hún silfurverðlaun á mótinu og var rétt á eftir breskum keppanda sem varpaði kúlunni 10,13 metra. Besti árangur þessa árs er í eigu hinnar öflugu Lisu Adams frá Nýja Sjálandi en hún hefur varpað kúlunni 14,55 metra og þykir einkar sigurstrangleg í flokkun fyrir Paralympics í París í sumar.

Kastsería Ingeborgar á Ítalíu: 9,31 – 9,10 – 8,83 – 9,42 – 9,83 – 9,30.

En Ingeborg reið ekki við einteyming á Ítalíu þar sem með henni í för var Stefanía Daney Guðmundsdóttir frá Eik/UFA en hún keppti í langstökki og var við sinn besta árangur. Stefanía hafnaði í 4. sæti í langstökkskeppninni í flokki T20 þar sem hennar lengsta stökk var 5,15 metrar. Íslandsmet hennar í greininni er 5,18 metrar og um þessar mundir er árangur hennar á meðal átta lengstu stökka á rankinglista IPC (Alþjóða Ólympíuhreyfing fatlaðra).

Stökksería Stefaníu á Ítalíu: X – X – 5,15 – 5,00 – 5,07 – 5,15.

Með hópnum í för á Ítalíu var Kári Jónsson landsliðsþjálfari, Melkorka Rán Hafliðadóttir þjálfari og Hafdís Sigurðardóttir þjálfari.

Framundan hjá Ingeborg og Stefaníu er heimsmeistaramót IPC í Kobe í Japan sem fram fer dagana 17.-25. maí næstkomandi. Þar á eftir verður Paris 2024 Grand Prix – Handisport Open Paris dagana 13.-14. júní í Parísarborg en það er síðasta mótið á alþjóðavettvangi fyrir Paralympics í París. Eins og sakir standa hefur IPC ekki enn deilt út sætum fyrir Paralympics en bæði Ingeborg og Stefanía vinna nú hörðum höndum að því að ná sér í þátttökurétt.

Stefanía Daney Guðmundsdóttir. ©Laurent_Bagnis
Sækja skyldar greinar
Load More By Jón Björn Ólafsson
Load More In 1. tbl. 2024
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Sigurjón vann annað árið í röð: Ingi Björn og Ásvtaldur meistarar í rennu- og BC 1-4

Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í einliðaleik í boccia lauk seinnipartinn á sunnudag …