Heim 2. tbl 2023 Í íþróttastarfi er aðeins eitt tungumál   

Í íþróttastarfi er aðeins eitt tungumál   

13 min read
Slökkt á athugasemdum við Í íþróttastarfi er aðeins eitt tungumál   
0
685

Sama hvaðan fólk kemur úr heiminum – allir geta stigið inn í leikinn og tekið þátt.
Í gegnum íþróttastarf er hægt að rjúfa einangrun og útilokun ef rétt er að staðið.

Evrópuverkefnið ,,Inclusive Europe” https://inclusivesportsforchildren.eu/  er samstarfsverkefni Special Olympics á Íslandi, Montenegro, Bosniu Herzegovinu, Lithaen, Rúmeníu og Slóvakíu. Háskóli í Poznan í Póllandi kom að rannsókn tengdri verkefninu í samstarfi við skrifstofa Special Olympics í Evrópu. Verkefnið hófst árið 2021 og er styrkt af EEA Norway Grant.

Þetta verkefni var sett af stað í samstarfi Íslands og Rúmeníu en Ísland hóf samstarf við Rúmeníu árið 2015 vegna YAP verkefnisins, – sem byggir á hreyfiþjálfun 2 – 7 ára barna.

Þetta verkefni var hugsað sem framhaldsverkefni  YAP og markhópur nú var 6 – 12 ára börn. Horft var sérstaklega til barna sem eru ekki að taka þátt í íþróttastarfi með jafnöldrum. Þar getur verið um að ræða börn með  hreyfihömlun, þroskahömlun, einhverfu eða annað sem getur haft áhrif á að þau falla ekki inn í hópinn eða þurfa sértæka aðstoð. Þjálfarar gegna lykilhlutverki þegar skapa þarf aðstæður sem láta öllum börnum líða vel á æfingum. Góðir þjálfarar leita lausna og þurfa að fá ráðgjöf og aðstoð ef á þarf að halda. Oft vantar fjármagn til að fá aðstoðarþjálfara eða liðveislustuðning, laga aðgengi eða kaupa búnað. Það er sameiginlegt öllum samstarfslöndum sem þátt tóku í þessu verkefni að þessi atriði hafa áhrif en á sama tíma er öllum  ljóst að aðstæður í löndunum eru mjög mismunandi.

Í upphafi verkefnisins 2021 var unnið að gerð fræðslubæklings fyrir þjálfara og islenskir þjálfarar lögðu hönd á plóg í því verkefni. Fræðsluefnið miðaði að því að setja fram æfingar sem væru byggðar upp fyrir fjölbreyttan hóp iðkenda. Verkefni landanna voru mismunandi en megináhersla var lögð á að setja upp æfingar fyrir öll börn, – að opna dyr að íþróttastarfi fyrir þau börn sem hafa ekki mætt og á sama tíma að skipuleggja æfingar út frá þátttöku allra barna, fatlaðra sem ófatlaðra.  Einnig voru löndin með markmið sem fólu í sér framkvæmd  fjölskylduráðstefna og opinna kynninga á íþróttastarfinu fyrir fjölskyldur og börn

Ísland gegndi sérfræðihlutverki í verkefninu og fulltrúar Íslands hafa heimsótt löndin og kynnt sér framgang verkefnsins. Í tengslum við verkefnið á Íslandi var styrkur veittur til körfuknattleiksdeild Hauka vegna Special Olympics hópsins og sett var á fót nýtt verkefni á Suðurnesjum þar sem komið var á fót fótboltaæfingum í umsjón UMFN og Keflavíkur í samstarfi við íþróttastjóra félaganna.

Fulltrúar allra þátttökulanda heimsóttu Ísland í október 2023 en lokafundur verkefnisins sem var í umsjón SOEE (Special Olympics í Evrópu) var tengdur þeirri heimsókn. Upphaflega átti sá fundur að vera á Írlandi. Gestirnir fengu kynningu á starfi ÍF og Special Olympics á Íslandi og verkefninu “Allir með”  Einnig var kynning á starfi ÍSÍ og UMFÍ og hópurinn fór í heimsóknir til ÍFR, í Haukahúsið og á æfingar hjá Special Olympics hópi Hauka. Farið var í heimsókn til samtakanna Þroskahjálpar á Háaleitisbraut, í Klettaskóla og á Sólheima. 

Á lokafundi verkefnisins, þriðjudaginn 10. október 2023 fór fram kynning á niðurstöðum rannsóknar á vegum háskólans í Poznan í Póllandi. Prófessor við Poznan háskólann kynnti niðurstöður.  Þar kom fram m.a. að stór þáttur sem hefur áhrif á virkni barna er hvort þau fá tækifæri til sjálfstæðis eða hvort þau séu mjög háð foreldrum sínum í daglegu lífi.

Á lokafundinum var kynnt nýtt verkefni sem byggir á Healthy Athlete verkefninu en nær til mun yngri barna, YAP eða Young Athlete. Fagfólk í heilbrigðiskerfinu skoðar bornin og metur  þörf á snemmtækri íhlutun eða vísar til nánari skoðunar.

Aðstæður í samstarfslöndunum eru mjög ólíkar en þetta samstarfsverkefni hefur haft mjög jákvæð áhrif í þessum löndum og sérstaklega í Bosníu Herzegovínu. Þar er starfið drifið áfram af kjarnakonu, Kodu Delic Selimovic, háskólakennara og frjálsíþróttaþjálfara sem er þekkt í heimalandinu vegna þátttöku á Ólympíuleikunum 1992 og 1996 þar sem hún keppti í göngu. Hún segir miklar og jákvæðar breytingar hafa fylgt þátttöku í þessu verkefni en aðstæður eru verulega krefjandi í hennar starfi. Sama gildir um önnur samstarfslönd að þar hafa góðir hlutir gerst með tilkomu þessa verkefnis og það hefur verið gífurlega lærdómsríkt að fylgjast með og upplifa mismunandi aðstæður landanna. Það vakti mikla athygli gestanna, hið góða  samstarf sem er innan íþróttahreyfingarinnar við ÍF og Special Olympics á Íslandi. Einnig vakti mikla athygli hve vel við öll þekktumst þegar farið var í heimsóknir á hina ýmsu staði og þessi atriði eru auðvitað gífurlega þýðingarmikil þó við séum ekki að velta því fyrir okkur. Áhöld, búnaður og aðstæður í t.d. Klettaskóla vakti sérstaka athygli en þar var fylgst með Íþrótta og sundkennslu. Iþróttahús ÍFR vakti einnig mikla athygli gestanna en það er eina íþróttahúsið á Íslandi í eigu íþróttafélags sem sérstaklega starfar að íþróttum fatlaðra.

Lokadagurinn 11. október var skipulagður sem skoðunarferð til Þingvalla og að Gullfossi á Geysi með viðkomu á Sólheimum. Þegar komið var á Þingvelli þar sem var kalt en stilla og bjart yfir vatninu, – þá varð fólki á orði að þetta væri draumi líkast, hin íslenska náttúra gerði þau orðlaus.   Á Sólheimum fengu gestir hina frægu súpu Sólheima og kepptu í boccia í íþróttasalnum. Þar var einnig farið yfir söguna og áhrifin sem baráttukonan Sesselja hefur enn í dag    

Umsjón með undirbúningi og framkvæmd heimsóknarinnar og aðkomu Íslands að verkefninu frá 2021 hafði Anna Karólina Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi ásamt Þórði Árna Hjaltested formanni ÍF og Special Olympics á Íslandi. Þetta Evrópuverkefni stendur út árið 2023 og Ísland á eftir eina heimsókn þar sem farið verður til Cluj í Rúmeníu og Bratislava í Slóvakíu. Hausið 2022 var farið til Montenegro, Bosniu og Herzegovinu og vorið 2023 til Litháen. 

Karen Ásta Friðjónsdóttir, fulltrúi í stjórn ÍF fær þakkir vegna aðstoðar við heimsóknina og Ingi Bjarnar bílstjóri fær einnig sérstakar þakkir. Þeir sem fylgt hafa  Önnu K Vilhjálmsdóttur í heimsóknir til landanna fá innilegar þakkir fyrir sitt mikilvæga framlag. Magnús Orri Arnarson, fær sérstakar þakkir fyrir myndatökur vegna Evrópuverkefnisins. Hann sá m.a. um myndatökur þessa viku og ráðinn til þess af Special Olympics í Evrópu. Einnig fá þjálfarar og aðrir sem aðstoðað hafa vegna fræðslubæklingsins og ýmissa verkefna, kærar þakkir

Anna K Vilhjálmsdóttir

Sækja skyldar greinar
Load More By Anna Karólína Vilhjálmsdóttir
Load More In 2. tbl 2023
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Magnús Orri í stóru  hlutverki á leiðtogaráðstefnu Special Olympics

Magnús Orri Arnarsson var aðalljósmyndari á leiðtogaráðstefnu Special Olympics í Evrópu se…