Heim 2. tbl 2023 Fjölbreyttar kynningar og góð tilþrif á Paralympic-daginn 2023

Fjölbreyttar kynningar og góð tilþrif á Paralympic-daginn 2023

7 min read
Slökkt á athugasemdum við Fjölbreyttar kynningar og góð tilþrif á Paralympic-daginn 2023
0
645

Fjölbreyttar íþróttagreinar og allir fengu að prófa! Paralympic-dagurinn 2023 fór fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal þann 2. desember síðastliðinn þar sem allt það helsta í íþróttum og lýðheilsu fatlaðs fólks var kynnt til leiks. Íþróttasamband fatlaðra hefur nú haldið Paralympic-daginn í um áratug en hann er kynning og skemmtun fyrir alla fjölskylduna þar sem allir eru velkomnir.

Í ár var það leikarinn og leikstjórinn Arnór Björnsson sem var kynnir á Paralympic-daginn en hann fer á kostum í myndbandinu hér neðar í fréttinni. Kynnir Paralympic-dagsins hefur það hlutverk að fara á milli stöðva, ræða við þjálfara og iðkendur um þá grein sem verið að kynna og skora á gesti og gangandi í létta og skemmtilega íþróttakeppni.

Í ár fóru m.a. fram kynningar á skotfimi, lyftingum, borðtennis, körfuknattleik, badminton, siglingar, bandý, golfi, pílu, bogfimi, júdó, blindraborðtennis, frjálsum, sundi, skautum, fimleikum og mörgu öðru. Nemendur við íþróttafræði í Háskólanum í Reykjavík settu annað árið í röð mark sitt á daginn með kynningum og voru til aðstoðar gestum og gangandi. Eitt af því sem mörgum fannst spennandi hjá HR var básinn þeirra þar sem gestir gátu mælt gripstyrk sinn.

Samstarfs- og styrktaraðilar ÍF hafa einnig verið duglegir að taka þátt í deginum með ýmsum hætti eins og Toyota og svo Össur sem hefur alla Paralympic-dagana frá upphafi kynnt framleiðsluvörur sínar.

Aðildarfélög ÍF eru í forgrunni á Paralympic-daginn og kynntu mörg hver starfsemi sína en það var einnig ánægjulegt að fá fulltrúa frá CP-félaginu og Æfingastöðinni til þess að standa að kynningum við daginn.

Íþróttasamband fatlaðra er meðlimur í Alþjóða Ólympíuhreyfingu fatlaðra (IPC) og sú hreyfing stendur að Paralympics. Það mót er stærsta afreksmót fatlaðs íþróttafólks. IPC er kveikjan að Paralympic-deginum þar sem alþjóðasamtökin hvöttu aðildarlöndin til þess að kynna með reglulegum hætti íþrótta- og æfingaúrræði fyrir fólki með fötlun. Paralympic-day er því orðið þekkt vörumerki í mörgum löndum. Að sama skapi er ÍF einnig aðili að Special Olympics en samtökin voru stofnuð af Kennedy fjölskyldunni í Bandaríkjunum árið 1968. Markmið þeirra í upphafi var að bjóða upp á íþróttatilboð fyrir fólk með þroskahömlun. Þróun hefur verið á þann veg að nú er lögð áhersla á samspil fatlaðra og ófatlaðra í formi „unified“ æfinga og keppni auk þess sem viðmið er „learning disability“ eða námserfiðleikar. Því hafa tækifæri skapast fyrir stóran hóp iðkenda gegnum Special Olympics samtökin. Þó IPC og Special Olympics séu ólík að mörgu leyti þá eiga þau það sameiginlegt að vera regnhlífarsamtök yfir íþróttum fatlaðra um heim allan.

Þar sem Paralympic-dagurinn er árviss viðburður þá hvetjum við alla til þess að taka daginn frá þegar hann er kynntur til leiks. Margt er að sjá og gera og markmiðið er að kynna fyrir fólki með fötlun þá möguleika sem eru í boði og það er von Íþróttasambands fatlaðra að gestir dagsins finni eitthvað við sitt hæfi og taki ákvörðun um að æfa og lifa heilsusamlegu lífi enda hefur íþróttaiðkun fatlaðra verið margrannsökuð og útkoman hefur sannað sig t.d. í aukinni atvinnuþátttöku, minni lyfjanotkun og minni þörf á þjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Hér að neðan má sjá myndband frá Paralympic-deginum sem Magnús Orri setti saman sem og myndasafn frá deginum. Til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg við Paralympic-daginn 2023 sendir Íþróttasamband fatlaðra sínar bestu kveðjur og þakkir fyrir samstarfið og stuðninginn.

Myndasafn frá Paralympic-deginum 2023 (Myndir JBÓ)

Sækja skyldar greinar
Load More By Jón Björn Ólafsson
Load More In 2. tbl 2023
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Afturelding af stað með verkefnið „Fótbolti fyrir alla“

Ungmennafélagið Afturelding hefur farið af stað með verkefnið „Fótbolti fyrir alla“ sem er…