Þótt þú glímir við fötlun eru mörg tækifæri til staðar fyrir þig!
Ingeborg Eide Garðarsdóttir, kúluvarpari úr Ármanni, tók stóra ákvörðun þegar leið á síðasta ár og hefur frá áramótum einbeitt sér að íþróttinni. Ingeborg er ein þeirra sem er í framlínunni meðal afreksfólks úr röðum fatlaðra og á ágæta möguleika á því að komast á Paralympics leikana sem haldnir verða í París í sumar en hún keppir í flokki F37.
Hvati settist niður með Ingeborgu að kastæfingu í frjálsíþróttahöllinni í lok árs og spurði hana fyrst út í nýliðið ár en þá rauf hún 9 metra múrinn.
„Árið 2023 hjá mér byrjaði á opnu stigamóti í Dubai og þar gekk mér mjög vel. Þar náði ég loks markmiði sem ég hef unnið að í tvö ár og kastaði yfir 9 metrana. Í tvö ár hafði ég stefnt að því að kasta kúlunni 9 metra eða lengra. Það reyndist erfitt því mér hafði tekist að kasta 8,99 og gat því ekki verið nær. Loksins kastaði ég 9,01 metra í Dubai og ég var því mjög sátt við frammistöðuna á fyrsta mótinu,“ segir Ingeborg og mikil bæting fylgdi í kjölfarið.
„Í framhaldinu keppti ég á Íslandsmótinu innanhúss og kom sjálfri mér rosalega á óvart með því að kasta 9,40 metra sem er svakaleg bæting. En síðan þá hefur mér gengið brösuglega þótt ég hafi vissulega átt góð mót á milli. Ég hef oft verið að kasta í kringum 8,70 – 8,80 á venjulegum degi.“
Frumraun á HM
Ingeborg lagði vel inn í reynslubankann umtalaða þegar hún keppti á HM sem fór einmitt fram í París, þar sem Paralympics mun fara fram.
„Ég fór á heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum í París og keppti þá á HM í fyrsta skipti. Ég reyndi fyrst og fremst að njóta þess að vera komin á þennan vettvang en auðvitað vill maður alltaf sjá árangur. Strax að mótinu loknu var ég svolítið svekkt og hefði viljað kastað lengra. Ég kastaði lengst 8,83 metra en var með hugann við að kasta 9 metra. Þegar leið frá mótinu fór ég að sjá að þetta var ekki slæm lengd á fyrsta stórmótinu,“ segir Ingeborg og að öllu óbreyttu fer hún aftur á HM á þessu ári.
„Umgjörðin er mjög stór og gaman að fá að taka þátt í jafn stóru móti og HM er. Maður keppir fyrir framan marga áhorfendur og það er óneitanlega stressandi að vita af jafn mörgum að fylgjast með manni. Foreldrar mínir voru reyndar í stúkunni og virkilega skemmtilegt að þau gætu séð sér fært að fylgja mér á HM. Á heildina litið var þátttakan á HM skemmtileg, stressandi og krefjandi. Eftir þessa reynslu veit ég hvernig er að fara á stóra sviðið og ég var meðvituð um að HM væri aftur á næsta ári [mótshald stórmóta eins og HM og EM riðlaðist í flestum íþróttagreinum í heimsfaraldrinum]. Um leið og ég hafði lokið keppni í París fannst mér ég vera tilbúin til að mæta á næsta HM og standa mig, vitandi hvernig væri að keppa á stórum leikvangi.“
Leggur allt undir
Ljóst er hvaða mót verða stærst á árinu og Ingeborg er að teikna upp dagskrána.
„Ég á von á að fara á stigamót á Ítalíu í mars og í París í júní en auk þess liggur fyrir að á árinu 2024 eru tvö stórmót á dagskrá. Heimsmeistaramótið verður í Kobe í Japan og Paralympics í París í lok ágúst og í byrjun september. Ég náði lágmarki fyrir bæði mótin og ég er með keppnisrétt á HM. Síðar mun skýrast hversu marga keppendur Íslendingar koma til með að eiga á Paralympics,“ segir Ingeborg og hún hefur tekið þá ákvörðun að leggja allt undir ef þannig má að orði komast.
„Ég tók þá ákvörðun að segja upp vinnunni og geyma námið. Um áramótin fær íþróttin því alla mína athygli. Auðvitað var þetta stór ákvörðun og nú á ég bara nokkra vinnudaga eftir. Þessu fylgja blendnar tilfinningar enda fylgir því fjárhagslegt öryggi að vera í starfi. En á sama tíma er mjög spennandi að takast á við þá áskorun að einbeita mér að kúluvarpinu. Ég er búin að setjast niður með þjálfaranum og fara yfir hvernig dagarnir geta litið út hjá mér. Ég mun einnig vera í samstarfi við Íþróttasamband fatlaðra,“ útskýrir Ingeborg en hún hefur starfað sem stuðningsfulltrúi í Vogaskóla. Ingeborg er með háskólagráðu í dönsku og setur nú frekara nám á ís.
„Ég reyni að taka eitt skref í einu varðandi íþróttirnar og það hentar mér best að einbeita mér að næsta móti. Þar af leiðandi er ég ekki farinn að hugsa of mikið um hvort ég verði á Paralympics eða ekki. HM verður áður en kemur að því og ég er því meira með hugann við HM eins og er. Ég veit nokkurn veginn hversu langt ég þarf að kasta til að geta náð sæti fyrir Ísland á Paralympics. Vitandi að það er raunhæft markmið, hef ég trú á að geta náð því og það gefur mér aukið sjálfstraust.“
Hafði gaman að boltanum
Ingeborg Eide er fædd árið 1996 og er því að nálgast besta aldur íþróttafólks í frjálsum íþróttum. Spurð út í hvort nafnið sér erlent útskýrir Ingeborg að hún eigi ættir að rekja til Noregs en það séu nokkrar kynslóðir aftur í ættir. Eide sé ættarnafn. Hún sé skýrð Ingeborg í höfuðið á ömmu sinni sem sjálf var skýrð eftir ömmu sinni og sú var norsk.
Ingeborg ólst upp í Hafnarfirði og prófaði ýmsar íþróttir á grunnskólaaldri.
„Ég tók þátt í alls konar íþróttum. Byrjaði til dæmis snemma í sundi og prófaði bæði fótbolta og körfubolta. Eftir því sem ég varð eldri varð orðið snúnara að vera í hópíþróttum. Það kom að þeim tímapunkti að ég fékk ekki lengur að taka þátt í leikjum í fótboltanum hjá Haukum. Ég man eftir því að hafa mætt í leik en fékk ekki að fara inn á og ég skynjaði skýrt að fötlun mín væri ástæða þess að ég fengi ekki að vera með. Það var sárt en ég hafði alltaf gaman að fótboltanum,“ segir Ingeborg sem er með CP helftarlömun sem þýðir að hún hefur verið lömuð í hægri hendi og fæti frá fæðingu. Segir hún orsökina óútskýrða í sínu tilfelli en hjá mörgum er súrefnisskortur í móðurkviði eða við fæðingu talin vera skýringin. En margar aðrar orsakir geta verið fyrir CP.
„Um svipað leyti sá mamma auglýsingu varðandi frjálsar íþróttir fyrir fatlaða í Laugardalshöllinni. Við prófuðum að mæta og ég fór á æfingu hjá Hauki Gunnarssyni. Mér fannst þetta skemmtilegt en ég byrjaði í spretthlaupi og langstökki áður en ég færði mig í kastgreinarnar,“ segir Ingeborg sem keppir fyrir Ármann í frjálsum en keppti í nokkur ár fyrir FH í frjálsum undir stjórn Silju Úlfarsdóttur.
Ingeborg segir að áhuginn á kúluvarpinu hafi aukist smám saman en ekki skemmdi fyrir að íþróttaiðkuninni fylgdu ferðalög til fjarlægra landa.
„Ég man vel eftir því að hafa farið í keppnisferð til Túnis þegar ég var líklega í kringum 12 – 13 ára aldurinn. Þar átti ég að keppa í spretthlaupi og kúluvarpi en lenti í álagsmeiðslum. Fyrir vikið keppti ég eingöngu í kúluvarpinu og þetta er skýrasta minningin frá kúluvarpskeppni á þessum árum enda mjög skemmtilegt að koma til Túnis. Ég man einnig að ég fékk stóran og massífan verðlaunapening á þessu móti.“
Gáma gym í heimsfaraldrinum
Ingeborg virtist um tíma vera á útleið úr afreksíþróttum vegna meiðsla og því nokkuð merkilegt að hún hafi keppt á HM og standi á þröskuldi Paralympics.
„Ég mölbraut á mér ristina á æfingu fyrir nokkrum árum og liðband slitnaði að auki. Þegar ég var frá æfingum fann ég ekki fyrir mikilli löngu til að snúa aftur. Ég fór í lýðháskóla og gerði það sem mig langaði að gera. En einhverjum árum síðar var ég í Danmörku í skiptinámi og hafði þá verið að styrkja mig í ræktinni. Þá fann ég að mig langaði til að gera meira og koma aftur inn í frjálsar í góðu formi. Koma þá kannski Kára Jónssyni þjálfara og fleirum á óvart um leið. Þá byrjaði ég aftur með því hugarfari að hafa gaman að þessu en var með á bak við eyrað að skemmtilegt væri að komast aftur á afreksstigið. Í framhaldinu kviknaði áhuginn aftur. Í kjölfarið kom heimsfaraldurinn en við stelpurnar sem erum að æfa saman létum það ekki stoppa okkur. Við vorum í gáma gym eins og stelpurnar kölluðu það. Þegar íþróttamannvirkin voru lokuð, vorum við með lóð og lyftingagræjur í flutningagámi. Þar mættum við alltaf og æfðum í tíu stiga frosti undir stjórn Kára. Við vildum ekki stoppa og ég held að þetta ár hafi gefið okkur mjög mikið vegna þess að þessu fylgir mikil þrautseigja. Eftir þetta keppti ég á EM og fann að ég naut þess,“ rifjar Ingeborg upp og hún býr yfir seiglu sem virðist meðfædd.
„Minn helsti kostur í íþróttinni virðist vera þrautseigja því ég held áfram að leggja mig fram þótt mér gangi illa. Þegar maður gengur í gegnum erfið tímabil sem keppnismaður þá hlýtur það að taka endi ef maður heldur áfram að æfa vel. Fyrri hluta þessa vetrar fékk ég oft flensu og hef oft verið slöpp. Ég hef því misst nokkuð úr síðustu vikur og hlakka því til að einbeita mér að æfingum og keppni á nýju ári. Nú reynir á að halda áfram að gera eins vel og hægt er en það mun hafa áhrif á framhaldið.“
Forðist að setja börn í bómul
Innan vébanda Íþróttasambands fatlaðra er unnið metnaðarfullt starf. Fötluðum gefst færi á að stunda ýmsar íþróttir sér til ánægju og heilsubótar. Fyrir þau sem vilja ganga skrefinu lengra, og ná langt í afreksíþróttum, talar árangurinn sínu máli hjá ÍF. Fjölmargir verðlaunahafar á Paralympics og HM hafa komið frá Íslandi í gegnum tíðina í sundi og frjálsum. Slíkt gerist ekki að sjálfu sér.
Hvaða skilaboð er Ingeborg með til foreldra fatlaðra barna varðandi íþróttaiðkun?
„Í desember var hinn árlegi Paralympics dagur og þar reyndum við að kynna starfið. Mætingin var ágæt en ég hefði viljað sjá örlítið fleiri. Mig grunar að foreldrar séu stundum svolítið smeykir við að mæta með börnin á æfingar. Við höfum stundum átt erfitt með að ná til foreldra fatlaðra barna til að kynna þau fyrir íþróttum. Ég myndi ráðleggja foreldrum fatlaðra barna að gæta þess að setja börnin ekki í bómul. Þau geta stundum átt erfitt með að sleppa takinu. Ég veit að það er með góðum vilja gert en með því er mögulega verið að gera stöðuna verri. Foreldrar mínir leyfðu mér að finna mína leið og leyfðu mér að reka mig á eins og gengur og gerist hjá ófötluðum börnum. Fyrir mitt leyti hafa íþróttirnar gefið mér rosalega margt. Ég er miklu sterkari líkamlega en ég væri annars og er heilsuhraust. Einnig gerir þetta mikið fyrir andlegu hliðina enda er gott að komast í þennan félagsskap og gefur manni aukið sjálfstraust. Þótt þú glímir við fötlun eru mörg tækifæri til staðar fyrir þig. En það getur verið erfitt að finna rétta áhugasviðið ef foreldrar passa um of upp á börnin sín,“ segir Ingeborg en hún er sjálf farin að láta til sín taka í starfinu en hún situr í stjórn frjálsíþróttadeildar Ármanns.
„Ef foreldrar vita ekki hvert þau eiga að leita þá er alltaf hægt að hafa samband við skrifstofu ÍF. Fólk má þess vegna senda mér skilaboð ef það vill og ég get bent þeim á hvaða leiðir eru í boði. Ég myndi vilja sjá fleiri fatlaða krakka í íþróttum en hlutfallslega eru sorglega fáir fatlaðir í íþróttum. Það er ekki nema 4% fatlaðs fólks á Íslandi sem stundar íþróttir. Allir þurfa á góðri hreyfingu að halda og ekki síst þessi hópur,“ segir Ingeborg Eide.