Nú er tækifærið til að kynnast bogfimi!
Næstu helgi 11.-12. febrúar verður bogfimikynning í íþróttahúsi ÍFR í Hátúni í Reykjavík. Kynningin er í samstarfi Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík og bogfimimannsins Þorsteins Halldórssonar. Allir velkomnir og kynningin er áhugasömum að kostnaðarlausu.
Hér á landi eru staddir góðir gestir sem æfa með Þorsteini um þessar mundir en þar má helstan nefna Slóvakann Marcel Pavlik sem er fyrrum Evrópumeistari og verðlaunahafi á heimsmeistaramótum í greininni. Þorsteinn og Marcel eru hinir mestu mátar og hafa æft stíft saman undanfarna daga í undirbúningi sínum fyrir Paralympics í París. Einnig hafa þeir mæst margoft á stórmótum í bogfimi um víða veröld. Báðir kepptu þeir t.d. á Paralympics í Ríó de Janeiro árið 2016 en það ár varð Þorsteinn fyrstur Íslendinga til þess að komast á Paralympics í bogfimi.
Þá er einnig hér með Þorsteini og Marcel hin pólska Keseniya Markitantova sem upprunalega er frá Úkraínu en keppir nú fyrir Pólland. Hún er einnig þaulreynd bogfimikona og hafnaði m.a. 9. sæti á Paralympics í Ríó de Janeiro 2016.
Bogfimikynningin verður í Hátúni 14 í Reykjavík laugardaginn 11. febrúar frá kl. 16.00-18.00 og á sunnudaginn 12. febrúar frá kl. 13.00-15.00. Ekki þarf að örvænta þó áhugasamir eigi ekki boga eða örvar því öllum verður gert kleyft að kynnast íþróttinni á staðnum undir handleiðslu Þorsteins, Marcels og Keseniyu ásamt Þresti Steinþórssyni ÍFR.
Önnur kynning verður einnig helgina 18. og 19. febrúar og þá á sömu tímum og þessa helgi.
Mynd/ Þorsteinn, Marcel og Kesniya við æfingar í Miðgarði í Garðabæ.