
Met áhorfenda í beinni útsendingu
Paralympics í París heppnuðust gríðarlega vel. Það hafa aldrei jafn mörg lönd sýnt frá viðburðinum og samkvæmt nýrri rannsókn Nielsen Sports sem gerð var á vegum Alþjóða Paralympic nefndarinnar (IPC) notuðu áhorfendur um allan heim um 763 milljón klukkustunda af útsendingum í beinni frá leikunum í París, 83% meira en frá leikunum í Tókýó 2020.
Opnunarhátíð Paralympics í París 2024 fór fram 29. ágúst síðastliðinn á Place de Concorde. Met var sett í áhorfi en það voru um 350 milljónir manna sem fylgdust með viðburðinum. Á lokahátíð leikanna voru um 194 milljónir áhorfenda sem fylgdust með, næstum 40% meira en þeir sem fylgdust með lokahátíðinni í Tókýó 2020.
Mesta umfjöllun frá upphafi
Í fyrsta skiptið í sögu fatlaðra var meira úrval af útsendingum í boði fyrir allar þær 22 íþróttagreinarnar sem keppt var í á leikunum. Frjálsar íþróttir var sú íþróttagrein sem skilaði mestum útsendingum eða um 1.648 klukkustundir í umfjöllun. Þar á eftir var það sund (860 klukkustundir), borðtennis (615 klukkustundir), hjólastólstennis (498 klukkustundir) og hjólastólakörfubolti (434 klukkustundir).
Mike Oeters, framkvæmdarstjóri IPC, sagði: „París 2024 sló öll met í útsendingum fatlaðra, að auki fengu fleiri tækifæri en nokkru sinni fyrr til að njóta leikanna. við erum afar ánægð með árangurinn þar sem hann undirstrikar vaxandi áhuga á Paralympics”.

Netleit um Paralympics rauf 1 milljarðs múrinn
Á samfélagsmiðlum IPC voru meira en 305 milljónir áhorfa á myndbönd frá Paralympics í París, sem er 35% aukning frá Tókýó 2020. Skemmtilegt er að nefna að í Bandaríkjunum lentu Paralympics í fimmta sæti í efstu Google fréttaleitunum árið 2024.
Ólympíuleikar fatlaðra í París 2024 fóru fram á tímabilinu 29. ágúst til 8. september 2024. Viðburðurinn laðaði að 4.400 íþróttamenn frá 169 löndum.
