Heim 2. TBL. 2025 Samþykkt að fólk með þroskahamlanir taki þátt á vetrar-Paralympics

Samþykkt að fólk með þroskahamlanir taki þátt á vetrar-Paralympics

5 min read
Slökkt á athugasemdum við Samþykkt að fólk með þroskahamlanir taki þátt á vetrar-Paralympics
1
198

Aðalfundur Alþjóða Ólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC) fór nýverið fram í Seoul í Suður-Kóreu. Við fundinn lögðu Norðurlöndin (Ísland, Noregur, Danmörk, Svíþjóð, Finnland og Færeyjar) fram tillögu sem einnig var studd af Spánverjum. Tillagan snérist um að opna fyrir þátttöku einstaklinga með þroskahamlanir á vetrar-Paralympics.

Gaman er að segja frá því að tillagan var samþykkt með miklum meirihluta eða með 148 atkvæðum gegn 7. Ekki verður opnað fyrir þátttöku einstaklinga með þroskahamlanir á vetrarleikana í Milano Cortina 2026 heldur er stefnan að það verði gert á vetrarleikunum 2030. Þá verða liðin 32 ár frá því að einstaklingar með þroskahamalnir kepptu síðast á stórmótum á vegum IPC í vetrargreinum. Síðustu þrjá áratugi hafa aðeins einstaklingar úr röðum hreyfihamlaðra og blindra/sjónskertra keppt á leikunum.

Það voru öll Norðurlöndin sem skrifuðu undir tillöguna og mikið fagnaðarefni hve breið samstaða var um hana. IPC og fleiri hagsmunaaðila eins og VIRTUS (alþjóðasamtök íþróttafólks með þroskahamlanir) og FIS (Alþjóða skíðasambandið) munu vinna náið saman við útfærsluna á því hvernig þessi fötlunarhópur mun stíga aftur inn á sjónvarsvið vetrarleikanna. Ljóst er að enn á eftir að ákveða hvaða greinar komi inn fyrir þennan fötlunarhóp og mun það skýrast á næstu árum. Við ættum því ekki að þurfa að bíða of lengi því að í kringum 2028 þurfa keppnisgreinar vetrarleikanna 2030 að standa skil á lágmörkum og viðmiðum til þátttöku á leikunum.

Þórður Árni Hjaltested formaður Íþróttasambands fatlaðra sagði niðurstöðuna mikinn sigur og tímabæran. „Ísland hefur á alþjóðavettvangi verið í fararbroddi sem talsmaður íþróttamanna með þroskahamlanir. Árið 2009 héldum við Evrópumeistaramót í sundi í Laugardalslaug og var það jafnframt fyrsta mótið sem íþróttafólk með þroskahamlanir tók þátt í á vegum IPC frá árinu 2000 eða allt frá því þau voru sett í keppnisbann eftir hneykslið sem skók íþróttaheim fatlaðra á sínum tíma. Spánverjar telfdu þá fram körfuboltaliði sem keppti í flokki þroskahamlaðra og voru 10 af 12 liðsmönnum Spánar ekki með þroskahamlanir heldur fulla greind. Þetta eyðilagði nokkrar kynslóðir af góðu íþróttafólki í röðum einstaklinga með þroskahamlanir og það hefur tekið mjög á að laga skaðann sem af þessu varð. Með því að fá þessa tillögu í gegn höldum við áfram baráttunni fyrir réttum íþróttamanna með þroskahamlanir,” sagði Þórður Árni sem var staddur í Kóreu á aðalfundinum þegar tillagan var samþykkt.

Sækja skyldar greinar
Load More By Jón Björn Ólafsson
Load More In 2. TBL. 2025
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Parsons endurkjörinn forseti IPC: Rússar og Hvít-Rússar aftur fullgildir meðlimir

Aðalfundur International Paralympic Committee (IPC) fer nú fram í Seoul í Suður-Kóreu. Bra…