
Hákon Atli Bjarkason tók þátt í sterku móti sem fór fram í Tékklandi 19.-21. júní en þar keppti hann í einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik.
Hákon lenti í krefjandi riðli í einliðaleik með leikmönnum frá Frakklandi, Póllandi og Rúmeníu. Hann sigraði George Emilian frá Rúmeníu 3-1 en tapaði gegn Frakklandi og Póllandi. Í tvíliðaleik spilaði Hákon með nýjum meðspilara frá Slóvakíu og mættu þeir sterkum liðum frá Frakklandi, Tékklandi og sameiginlegu pari frá Frakklandi og Hvíta Rússlandi. Úrslitin féllu ekki með Hákoni og meðspilara en þeir töpuðu öllum leikjunum. Hákon keppti með Kyru Liepack í tvenndarleik, sama meðspilara og hann vann til bronsverðlauna í Finnlandi. Þau þurftu að sætta sig við tap í oddahrinu gegn Frakklandi/Þýskalandi, 3-0 gegn frönsku pari sem er eitt það sterkasta í heimi en unnu síðan góðan 3-1 sigur á Tékklandi/Ítalíu.
ÍF óskar Hákoni til hamingju með flottan árangur.
Hákon er einn af þjálfurum íþróttanámskeiðs fyrir hreyfihömluð börn og ungmenni sem haldið verður 14-18 júlí í Skógarseli.