Heim 1. tbl. 2025 Leikskólinn Furugrund innleiðir YAP og öll börn fara í hreyfimat að hausti og vori

Leikskólinn Furugrund innleiðir YAP og öll börn fara í hreyfimat að hausti og vori

8 min read
Slökkt á athugasemdum við Leikskólinn Furugrund innleiðir YAP og öll börn fara í hreyfimat að hausti og vori
0
392

Leikskólinn Furugrund í Kópavogi hóf í haust innleiðingu á YAP eða Young Athletes Program sem er alþjóðaverkefni í samstarfi Special Olympics International og háskóla í Boston. Verkefnið byggir á markvissri hreyfiþjálfun og markhópur er börn frá  tveggja til sjö ára. Special Olympics á Íslandi hóf innleiðingu  YAP  árið 2015 og frá upphafi var horft til samstarfs við  leikskóla. YAP snýr að allri færni sem tengist hreyfiþroska, eins og t.d. að kasta, hlaupa og sparka. Markviss hreyfiþjálfun hjá börnum hefur sýnt fram á aukna vellíðan, sjálfsöryggi, gleði, sjálfsstjórn og tjáningu. Einnig verða framfarir á sviði hreyfifærni, félagslegra samskipta sem og tjáskipta, þar sem málörvun fer fram á meðan þjálfun stendur. 

Markmiðið með þessu verkefni er að auka hreyfifærni allra barna með áherslu á persónulega nálgun og  sérstök áhersla er lögð á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar.       Ef leikskólar leggja markvissa áherslu á hreyfingu, eins og YAP býður upp á, má gera ráð fyrir að það geti stuðlað að því að börn með einhvers konar þroskafrávik verði virkari í íþróttastarfi í framtíðinni. YAP-ið nýtist öllum börnum en talið er að það hafi mest áhrif til framtíðar fyrir börn með sérþarfir eða frávik. Sérstakur markhópur er nemendur með slaka hreyfifærni, hegðunarvandkvæði, vanvirkni eða óöryggi sem og tvítyngdir nemendur. 

Hér er hægt að lesa sér meira til um YAP: Young Athletes (specialolympics.org) 

Í Leikskólanum Furugrund er unnið er eftir fyrirfram ákveðnum markmiðum og áhersluatriðum einn mánuð í senn. Áhersluatriðin eru átta: (1) grunnfærni, (2) ganga og hlaupa, (3) kasta, grípa og rúlla, (4) jafnvægi og hopp, (5) kasta, (6) slá/sveifla, (7) sparka og (8) sérstök hreyfifærni. Öll börnin fá leikfimistíma 2x í viku og hver tími er u.þ.b. 30 mínútur. Leikfimistímarnir byrjuðu í íþróttasal í Snælandsskóla en vegna myglu þurfti að aðlagast aðstæðum og tímarnir eru núna inni á deildum. Vonandi verður hægt að byrja í íþróttasalnum aftur sem fyrst en óljóst er hvenær það verður. Vegna breyttra aðstæðna þá fá elstu tveir árgangarnir því miður einungis einn leikfimistíma tíma í viku. Einnig er boðið upp á einstaklings/paratíma fyrir þau börn sem starfsfólk telur þurfa á því að halda en valið byggjast á niðurstöðum hreyfimats. Öll börn fara í hreyfimat sem er tekið tvisvar sinnum á ári, að hausti og að vori, til að meta stöðu og framfarir.  

Andrea Björt Ólafsdóttir iðjuþjálfi hefur yfirumsjón með verkefninu en hún hóf störf á Leikskólanum Furugrund haustið 2024.  Andrea Björt starfaði áður á meðferðargeðdeild Laugarás frá árinu 2019. Hún hefur einnig víðtæka þjálfunarreynslu úr körfubolta og meðal annars verið yfirþjálfari unglingalandsliðs. Í námi hennar við iðjuþjálfunardeild Háskólans á Akureyri fór hún í vettvangsnám til Íþróttasambands Fatlaðra (ÍF) og kynntist þar YAP-inu og starfinu hjá Ástu Katrínu Helgadóttur íþróttakennara í Heilsuleiksskólanum Skógarás á Ásbrú. Síðan þá hefur Andrea Björt haft brennandi áhuga á að taka þátt í að innleiða YAP-ið á fleiri staði og dreymir um að allir leikskólar landsins sinni markvissri hreyfiþjálfun. Ásta Kata hefur verið frumkvöðull í innleiðingu YAP í leikskólum á Íslandi með góðum stuðning frá Önnu Karólínu framkvæmdastjóra Special Olympics og þróunarsviðs ÍF.  Ásta Kata og Anna Karólína studdu vel við bakið á Andreu Björt og gerði það að verkum að mögulegt var fyrir Leikskólann Furugrund að byrja með YAP. Starfsfólk leikskólans tekur einnig virkan þátt í leikfimistímunum. Því á sér stað samheldin og góð vinna við markvissa hreyfiþjálfun í leikskólanum. Starfsfólk upplifir börnin glöð og spennt fyrir leikfiminni ásamt því að vera mjög áhugasöm.  

Grein frá Leikskólanum Furugrund, Kópavogi

Sækja skyldar greinar
Load More By Anna Karólína Vilhjálmsdóttir
Load More In 1. tbl. 2025
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Á leið til Ítalíu vopnaðir myndavélum og góða skapinu!