Íþróttafólk ársins 2024 hjá Íþróttasambandi fatlaðra var útnefnt í dag á hófi Íþróttasambands fatlaðra við Grand Hótel í Reykjavík. Sonja Sigurðardóttir og Róbert Ísak Jónsson eru íþróttakona – og íþróttamaður ÍF árið 2024.
Helgi Þór Gunnarsson formaður borðtennisnefndar ÍF hlaut Hvataverðlaunin 2024 fyrir óeigngjarnt starf í þágu borðtennisíþróttar fatlaðra í þrjá áratugi!
Bergdís Ingibergsdóttir aðstoðar hótelstjóri Hótel Reykjavík Grand afhenti verðlaunahöfum dagsins blóm og þá var Sigurður Ingi Bjarnason frá SIGN einnig viðstaddur afhendinguna en hann útvegar alla verðlaunagripi við hófið. Bergdísi og Sigurði færum við hjá Íþróttasambandi fatlaðra bestu þakkir fyrir samstarfið.
Íþróttamaður ársins 2024: Róbert Ísak Jónsson
Róbert Ísak Jónsson setti þrjú Íslandsmet í sundi árið 2024 í flokki S14, þar af var eitt sett í 25m laug og tvö sett í 50m laug. Á Norðurlandamóti setti Róbert Íslandsmet í 25m laug í 50m bringusundi þegar hann kom í mark á tímanum 30,40 sek, metið var einnig Norðurlanda- og Evrópumet í hans flokki. Róbert setti tvö Íslandsmet á Paralympics í París. Í undanrásum í 100m flugsundi kom hann í bakkann á millitímanum 26,45 sek sem er Íslandsmet og í úrslitunum gerði hann sér lítið fyrir og setti Íslandsmet í 100m flugsundi þegar hann kom í mark á tímanum 57,92 sek.
Róbert tók þátt á þremur stórmótum árið 2024, Norðurlandamóti (NM), Evrópumeistaramóti IPC (EM) og Paralympics. Á NM var keppt í 25m laug og Róbert varð Norðurlandameistari í 50 m bringusundi ásamt því að fá silfur í 100m flugsundi og brons í 50m flugsundi. Á EM keppti Róbert í 100m flugsundi og kom þriðji í mark af evrópsku keppendunum á tímanum 58,43 sek og landaði því bronsverðlaunum. Á Paralympics í París komst Róbert í úrslit í 100m flugsundi þar sem hann endaði í 6. sæti á tímanum 57,92 sek sem er nýtt Íslandsmet eins og kom fram hér ofar.
Þetta er í þriðja sinn sem Róbert hlýtur nafnbótina Íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra en hann var fyrst kjörinn árið 2018 og aftur árið 2021 í sögulegu kjöri þar sem hann og Már Gunnarsson hlutu báðir nafnbótina Íþróttamaður ársins fyrir árangur sinn í sundlauginni það árið.
Íþróttakona ársins 2024: Sonja Sigurðardóttir
Sonja Sigurðardóttir setti alls 11 Íslandsmet í sundi á árinu 2024 í flokki S3, þar af voru sex sett í 25m laug og fimm í 50m laug. Á norðurlandamóti setti Sonja Íslandsmet í 25m laug í 50m baksundi með tímann 1:10,22, 50m skriðsundi með tímann 1:10,18 og 100m baksundi með tímann 2:31,86. Á EM setti hún Íslansmet í 100m skriðsundi þar sem hún kom í mark á tímanum 2:22,15 og í 50m skriðsundi þar sem hún kom í mark á tímanum 1:07,43. Á Paralympics í París setti Sonja einnig Íslandsmet þar sem hún kom í mark í úrslitum í 50m baksundi á tímanum 1:07,46.
Sonja tók þátt á tveimur stórmótum árið 2024, á Evrópumeistaramóti IPC (EM) og á Paralympics. Á EM keppti Sonja í 100m skriðsundi og 50m baksundi þar sem hún endaði í 5 sæti í báðum greinum á nýjum Íslandsmetum. Á Paralympics í París keppti Sonja í tveimur greinum, 50m baksundi og 100m baksundi. Sonja komst í úrslit í 50 m baksundi þar sem hún endaði í 7. sæti á nýju Íslansmeti.
Þetta er í fimmta sinn sem Sonja hlýtur nafnbótina Íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra en hún var fyrst kjörin árið 2008, aftur árið 2009, 2016 og nú seinast árið 2023. Þetta verður því annað árið í röð sem hún hlýtur nafnbótina og alls fimm sinnum.