
Sundmaðurinn Snævar Örn Kristmannsson Breiðablik/ÍFR opnaði heimsmeistaramót VIRTUS með látum í nótt þegar hann landaði silfurverðlaunum og setti nýtt Íslandsmet í 50m flugsundi í flokki 3 hjá Virtus. Flokkur þrjú er flokkur sundmanna með einhverfugreiningar.
Fyrra met Snævars í greininni var 27,52 sekúndur sem hann setti í apríl á þessu ári en nú bætti hann um betur, landaði silfri á HM þegar hann kom í bakkann á tímanum 27,20 sek. og bætti þar fyrra metið sitt nokkuð myndarlega.
Snævar hefur ekki sungið sitt síðasta á HM í Tælandi en hann var skráður til leiks í fjórum greinum. Á meðfylgjandi mynd er Snævar með þjálfaranum sínum Peter Garajszky en þeir félagar verða önnum kafnir næstu daga. Á morgun fær Snævar vel þegna hvíld en á miðvikudag er keppni í 200m flugsundi, á fimmtudag 100m flugsund og 50m skriðsund svo á föstudag.
Til upplýsinga:
Virtus er Alþjóðasamband íþróttafólks með þroskahamlanir og er stofnaðili að Alþjóða Ólympíunefnd fatlaðra (IPC). Heimasíða VIRTUS
Mynd/ Bergrún: Snævar og Peter að lokinni verðlaunaafhendingu í 50m flugsundi fyrir flokk 3.
