Nýárssundmót Íþróttasambands fatlaðra fór fram í Laugardalslaug í dag þar sem Rósa Kristín Kristmannsdóttir úr Ármanni vann Sjómannabikarinn annað árið í röð.
Rósa Kristín syndir fyrir Ármann og vann besta afrek mótsins í 50m skriðsundi þegar hún kom í bakkann á 37,14 sek. og hlaut 380 stig fyrir og þar með besta afrek mótsins.
Þetta var í fertugasta sinn sem Nýárssundmótið er haldið en í ár var það með breyttu sniði. Þetta árið var opnað fyrir þátttöku 18 ára og eldri og komu allir sundmenn sem kepptu á Paralympics í París fyrir Íslands hönd að heimsækja mótið.
Már Gunnarsson leit við í borgaralegum klæðum og heilsaði upp á keppendur og þau Róbert Ísak Jónsson, Thelma Björg Björnsdóttir og Sonja Sigurðardóttir tóku öll þátt. Skemmtilegt mót í enn skemmtilegri umgjörð en þegar Nýárssundmótið fer fram er það skólahljómsveit Kópavogs sem sér um tónlistarflutninginn í upphitun.
Jóhann Steinar formaður UMFÍ var heiðursgestur mótsins og afhenti keppendum þátttökuverðlaun sem og öll önnur verðlaun, þar með talinn Sjómannabikarinn.