Þann 2006 átti ég fyrsta barnið mitt, yndislegur lítill strákur kom í heiminn. Eftir því sem að hann óx fór ég að velta fyrir mér hvað væri hægt að gera skemmtilegt með barninu. Á þeim tíma var svona helst að skreppa í ungbarnasund og fara í krílasálma. Við kíktum í það og höfðum gaman af. Síðan fór ég að skoða eftir einvherju meira fyrir drenginn kannski eitthvað tengt íþróttum. Þá rakst ég á flott námskeið í Hreyfilandi sem hét snillingafimi. Skráði okkur í það og þá hófst mín kynni á þeirri flottu starfsemi sem er í gangi í Hreyfilandi.
Í Hreyfilandi gerðum við margar æfingar sem örvuðu taugaþroskann hjá honum. Það voru æfingar eins og æfingar í teppi, á bolta, á kvið ásamt hinum ýmsu styrktaræfingum. Minn drengur hefur alltaf verið á eftir í hreyfiþroska enda greinist hann síðan með einhverfu 2 og ½ árs. Það sem kom í ljós í greiningu var að hann var samt sem áður orðin frekar góður í hreyfiþroska miðað við börn með einhverfu þar sem hann fékk svo góða örvun í Hreyfilandi hjá henni Kristinu. Kristina er algjörlega frábær þjálfari með mikla menntun í tengingu taugaþroskans við hreyfingu barna. Hún er einstaklega fær í að sjá hvað barninu vantar þegar kemur að örva það og kemur með allskonar lausnir fyrir foreldra.
Í dag er drengurinn á nokkuð góðum stað hvað varðar hreyfiþroska þrátt fyrir að vöðvaspennan og viðbragð verður ávallt slakt. Hann er fær í sundi og væri alls ekki á þeim stað sem hann er í dag nema fyrir þann góða grunn sem meðal annars var lagður í Hreyfilandi.
Þegar árin liðu og fleiri börn fæddust okkur hjónum hefur Hreyfiland alltaf fylgt með okkur sem góðan grunn fyrir hreyfiþroska barnanna. Nú er ég menntaður Íþróttafræðingur og búin að kynna mér einstaklega vel aðferðina sem er nýtt m.a. í Hreyfilandi. Byggt er á TSMT meðferð í samvinnu við BHRG stofnunina í Ungverjalandi. Það er mjög nákvæm aðferð til að örva tauga og heilaþroska barna að 12 ára. Þegar ég átti yngsta prinsinn minn 9 vikum fyrir tíman kom ekkert annað til hugar en að kíkja með hann til hennar Kristínu í Hreyfiland. Hann byrjaði 3ja vikna í snillingafimi. Hann hélt áfram allveg til að verða 2 ára. Hann átti við ýmis vandamál til að byrja með. Hann var seinn til að gera sumt eins og fyrirburar eru stundum, hann dró annan fótinn og var með slaka vöðvaspennu. Hann er í dag hress 8 ára peyji sem er í nokkrum íþróttagreinum og gengur vel í því.
Ég get með öllu móti mælt með Hreyfilandi og Kristinu fyrir öll börn því að hreyfing hefur svo mikið að segja varðandi allt varðandi framtíðina. Að örva barnið rétt með hreyfingu hjálpar barninu seinna meir með skóla, félagsþroska svefn og fleira. Eins ef að börn þurfa frekari örvun vegna greininga þá er svo mikilvægt að gera það sem allra fyrst upp á taugatengingar í heila barnsins. Snemmtæk íhlutun í formi hreyfingar er það allra besta sem hægt er að gera við tímann sinn sem foreldri fyrir framtíð barnsins.
Bergrún Stefánsdóttir