Heim 1. tbl. 2024 Ingeborg Eide með nýtt og glæsilegt Íslandsmet á Ítalíu

Ingeborg Eide með nýtt og glæsilegt Íslandsmet á Ítalíu

4 min read
Slökkt á athugasemdum við Ingeborg Eide með nýtt og glæsilegt Íslandsmet á Ítalíu
0
643

Frjálsíþróttakonan Ingeborg Eide Garðarsdóttir hefur nýlokið keppni á Jesolo 2024 Grand Prix – Italian Open Championships. Ingeborg fann sig vel í sólinni á Ítalíu og bætti Íslandsmetið sitt í kúluvarpi í flokki F37 en þar bætti hún met sem hún setti nýverið á meistaramóti Íslands í frjálsum innanhúss.

Á meistaramótinu hér heima varpaði hún kúlunni 9,73 metra en á Ítalíu bætti hún um betur þar sem hún í fimmta og næstsíðustu tilraun varpaði kúlunni 9,83 metra og bætti metið sitt um heila 10 sentimetra! Magnaður árangur og ljóst að spennandi sumar er í vændum hjá þessari öflugu frjálsíþróttakonu. Með árangri sínum hlaut hún silfurverðlaun á mótinu og var rétt á eftir breskum keppanda sem varpaði kúlunni 10,13 metra. Besti árangur þessa árs er í eigu hinnar öflugu Lisu Adams frá Nýja Sjálandi en hún hefur varpað kúlunni 14,55 metra og þykir einkar sigurstrangleg í flokkun fyrir Paralympics í París í sumar.

Kastsería Ingeborgar á Ítalíu: 9,31 – 9,10 – 8,83 – 9,42 – 9,83 – 9,30.

En Ingeborg reið ekki við einteyming á Ítalíu þar sem með henni í för var Stefanía Daney Guðmundsdóttir frá Eik/UFA en hún keppti í langstökki og var við sinn besta árangur. Stefanía hafnaði í 4. sæti í langstökkskeppninni í flokki T20 þar sem hennar lengsta stökk var 5,15 metrar. Íslandsmet hennar í greininni er 5,18 metrar og um þessar mundir er árangur hennar á meðal átta lengstu stökka á rankinglista IPC (Alþjóða Ólympíuhreyfing fatlaðra).

Stökksería Stefaníu á Ítalíu: X – X – 5,15 – 5,00 – 5,07 – 5,15.

Með hópnum í för á Ítalíu var Kári Jónsson landsliðsþjálfari, Melkorka Rán Hafliðadóttir þjálfari og Hafdís Sigurðardóttir þjálfari.

Framundan hjá Ingeborg og Stefaníu er heimsmeistaramót IPC í Kobe í Japan sem fram fer dagana 17.-25. maí næstkomandi. Þar á eftir verður Paris 2024 Grand Prix – Handisport Open Paris dagana 13.-14. júní í Parísarborg en það er síðasta mótið á alþjóðavettvangi fyrir Paralympics í París. Eins og sakir standa hefur IPC ekki enn deilt út sætum fyrir Paralympics en bæði Ingeborg og Stefanía vinna nú hörðum höndum að því að ná sér í þátttökurétt.

Stefanía Daney Guðmundsdóttir. ©Laurent_Bagnis
Sækja skyldar greinar
Load More By Jón Björn Ólafsson
Load More In 1. tbl. 2024
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Afturelding af stað með verkefnið „Fótbolti fyrir alla“

Ungmennafélagið Afturelding hefur farið af stað með verkefnið „Fótbolti fyrir alla“ sem er…