
Hlaut flokkun og tók þátt í sínu fyrsta alþjóðlega móti
Gauti Stefansson var i sumar fyrstur Íslendinga til þess að hljóta flokkun og keppa á alþjóðlegu móti í klifri. Gauti ryður nú leiðina her heima fyrir áhugasama einstaklinga með fatlanir sem gætu hugsað sér að prófa klifuríþróttina.
Klifuríþróttin verður á meðal keppnisgreina á Paralympics 2028 og þó Gauti sé tiltölulega mikill nýliði í greininni er hann ekki smeykur við að skoða þann möguleika á að vinna sér inn sæti í Los Angels eftir þrjú ár. Hann tók þátt í stærsta klifurmóti ársins í ParaClimbing eða ParaKlifri en mótið fór fram í Innsbruck.
„Ég fór fyrst og fremst í þetta verkefni til þess að fá flokkun og sjá hvar ég stend,“ sagði Gauti við Hvatisport.is en Gauti hafnaði í 22. sæti af 24 keppendum sem skráðir voru til leiks. Gauti keppir í línuklifri og hlaut flokkunina AL-2 en Gauti er einfættur og keppir því í flokki hreyfihamlaðra. Eins og mörgum er kunnugt þá er mikilvægt fyrir íþróttafólk úr röðum fatlaðra að hljóta alþjóðlegar flokkanir en þar eru fagteymi sem meta fatlanir íþróttafólks og skipa þeim svo í flokka byggt á fötlun hvers og eins. Öllu jöfnu eru ekki veitt alþjóðleg keppnisleyfi fyrr en slíku ferli er lokið.

„Það voru farnar tvær leiðir á mótinu í Innsbruck og í annarri leiðinni þá hófst klifrið á mjög erfiðri hreyfingu. Ég var mjög ánægður með að hafa náð þessari fyrstu hreyfingu þar sem margir keppendur duttu. Það var vissulega reynsluleysi sem kom í ljós á mótinu en það stendur til bóta því þessi tækniatriði í greininni lærir maður með tímanum,“ sagði Gauti sem er 53 ára gamall. Það kemur ekki að sök þar sem aldur ParaKlifrara er nokkuð hár en sigurvegari mótsins var Frakkinn Thierry Delarue sem er 47 ára gamall.
Gauti var einnig í sérstöku innslagi á Youtube frá mótinu í Innsbruck en sjá má það hér að neðan:
Myndir/ Lena Drapella/IFSC