Jarðarför Ólafs Ólafssonar, formanns íþróttafélagsins Aspar fór fram í kyrrþey föstudaginn 6. september sl. Stórt skarð er höggvið í íþróttahreyfingu fatlaðra og Olla okkar er sárt saknað.
Minningargrein birt í mbl föstudag 6. september 2024
Fallinn er frá einstakur maður, hann Olli í Öspinni, Olli okkar allra. Allt hans líf einkenndist af þeirri lífsýn að verða að liði og skapa hamingju, gleði og tækifæri fyrir aðra.
Ómetanlegt, óeigingjarnt og einstakt lífsstarf í þágu íþrótta fatlaðra verður aldrei fullþakkað. Þvílík vegferð, en nú er komið að kveðjustund.
Sem formaður íþróttafélagsins Aspar var hann vakinn og sofinn yfir velferð iðkenda og heimili fjölskyldu hans varð heimili þeirra. Öll fjölskyldan tók þátt í starfi félagsins og Öspin átti sinn stað í hjarta þeirra allra.
Olli varð snemma ötull liðsmaður Íþróttasambands fatlaðra, tók virkan þátt í starfi nefnda og ráða ÍF og vann af krafti að framgangi bocciaíþróttarinnar á Íslandi. Hann sat í stjórn ÍF 1982-1984 og í stjórn Special Olympics á Íslandi frá 1990. Ávallt boðinn og búinn til aðstoðar. Hans mikla brautryðjandastarf á sviði íþrótta fatlaðra byggist ekki síst á því að í hvert skipti sem tilboð kom að utan til ÍF um ný tækifæri eða ný mót var Olli tilbúinn að stíga ný skref, setja á fót nýjar greinar og gefa færi á fleiri tækifærum. Sá eldmóður og sú einlæga gleði sem fylgdi Olla í starfi hans að framgangi íþrótta fatlaðra kveikti neista og dró aðra með í verkefnin. Enginn kunni betur að fagna og gleðjast og njóta upplifunar í hita augnabliksins. Að fylgjast með Olla á opnunarhátíðum Special Olympics þegar keppt var um fallegasta pinnann eða þegar horft var á keppendur njóta sín í íþróttastarfinu, þá var Olli himinlifandi glaður og ánægður. Hann gladdist yfir hverju skrefi sem iðkendur tóku og fylgdi þeim eftir af mikill alúð. Olli var í stjórnendahlutverki sem formaður Aspar en hans hlutverk var að stórum hluta bak við tjöldin, í grasrótarstarfinu og að aðstoða iðkendur á allan hátt. Sama gilti þegar hann gegndi fararstjóra- eða þjálfarahlutverki á mótum ÍF erlendis, þar var hann liðsmaður í hverju verkefni.
Hann hlaut ýmsar vegtyllur og viðurkenningar á lífsleiðinni sem var sannarlega verðskuldað. Það gladdi hann að finna að starf hans væri metið og hann vissi að öll athygli sem tengdist íþróttafélaginu Ösp gæti skapað möguleika á auknum stuðningi. Vakinn og sofinn yfir öllu sem gæti aukið vegsæld félagsins hans allt fram á síðasta dag.
Það er heiður að hafa fengið að kynnast og verða samferða slíkum öðlingi og brautryðjanda og hans verður sárt saknað. Saga íþrótta fatlaðra á Íslandi, sem Olli tók virkan þátt í að skapa, er forsenda framtíðarverkefna og nýrra tíma í íþróttastarfi fatlaðra.
Undirrituð er þess ævarandi þakklát að Olli varð mín hægri hönd þegar ég mætti til starfa hjá ÍF og gegnum árin hafa skapast ógleymanlegar minningar um stórkostlegar samverustundir og skemmtileg verkefni með góðum félögum og vinum.
Íþróttasamband fatlaðra og Special Olympics á Íslandi standa í mikilli þakkarskuld við Olla okkar sem nú hverfur á braut til nýrra verkefna. Blessuð sé minning góðs vinar og félaga.
Innilegar samúðarkveðjur til Helgu, Óla og fjölskyldu og vina Olla.
F.h. stjórnar og starfsfólks Íþróttasambands fatlaðra,
Anna Karólína Vilhjálmsdóttir (Anna Lína).