Andri Stefánsson framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands var sæmdur gullmerki Íþróttasambands fatlaðra við kjörið á íþróttafólki ársins 2023. Kjörinu var lýst á Grand Hótel í Reykjavík en það var Þórður Árni Hjaltested formaður ÍF sem sæmdi Andra gullmerki sambandsins.
Eins og mörgum er kunnugt var Andri áður afreksstjóri ÍSÍ áður en hann tók við framkvæmdastjórastöðu ÍSÍ af Líney Rut Halldórsdóttur. Á tíma sínum sem afreksstjóri vann Andri oft náið með ÍF við afreksmál og þá einkum við undirbúning og framkvæmd Paralympics. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er framkvæmdaraðili Íslands við Ólympíuleika þar sem Andri hefur um langt skeið verið aðalfararstjóri og því var það ÍF mikilvægt að geta notið leiðsagnar Andra við undirbúning Paralympics sem jafnan fara fram í sama landi og sömu aðstöðu og Ólympíuleikarnir með liðlega þriggja vikna millibili.
Andri hefur einnig reynst ÍF vel í fjölda annarra verkefna og er einkar vel að gullmerkinu kominn. Stjórn og starfsfólk Íþróttasambands fatlaðra óskar Andra til hamingju með gullmerkið með þökk fyrir frábært samstarf í gegnum árin.
Myndir/ JBÓ