Heim 2. TBL. 2025 Stjörnuleikir Hauka Special Olympics

Stjörnuleikir Hauka Special Olympics

7 min read
Slökkt á athugasemdum við Stjörnuleikir Hauka Special Olympics
0
27

Mikil stemning myndaðist þegar Stjörnuleikir Hauka Special Olympics voru haldnir um helgina en þar mættust leikmenn HaukaSO og atvinnu- og meistaraflokksleikmenn úr efstu deildum þar sem þrír „unified“ körfuboltaleikir voru spilaðir.

Hugmyndin að Stjörnuleikjunum kviknaði þegar Bára Fanney Hálfdánardóttir, þjálfari HaukaSO heyrði af Stjörnuleik í Vestmannaeyjum þar sem leikmenn Ægis og meistaraflokksleikmenn í handbolta tóku leik. Bára fór strax í að skipuleggja sambærilegan viðburð innan körfuboltans og ákvað að halda hann í tengslum við körfuboltaviku Special Olympics í Evrópu. Markmiðið með þessu var að leikmenn fengju tækifæri til að spila með og á móti meistaraflokksleikmönnum og upplifa leikdag með allri þeirri umgjörð sem fylgir efstu deildum. Allur ágóði af viðburðinum rann beint í ferðasjóð liðsins.

Unified leikir, þar sem fatlaðir og ófatlaðir eru að spila saman er frábært tækifæri fyrir alla til þess að læra af hvort öðru, sýna virðingu og eflast sem einstaklingar. Við höfum áður verið að keppa unified leiki við yngri flokka og á þeim mótum sést langa leiðir hvað þetta er gott fyrir alla segir Bára. Fyrir leikmenn HaukaSO skiptir þetta gífurlega máli, því það er mikilvægt fyrir þau að upplifa og finna fyrir því að þau séu hluti af körfubolta samfélaginu. Að þau fá líka tækifæri að fara á móti, keppa, mæta á leiki og kynnast körfuboltafólki.

Undirbúningur mótsins gekk afar vel að sögn Báru og fékk hún til liðs við sig sterkt þjálfarateymi og foreldrahóp sem hjálpaði mikið til.

„Við eru svo heppin að fá frábæra aðila með okkur í þetta verkefni og langar mig að nýta tækifærið að þakka Just Wingin‘ It, GEFF, Góu, Ölgerðinni og Stjörnusnakk. Ásamt því að þakka KKÍ- dómurunum sem tóku að sér að dæma alla leikina. Just Wingin‘ It er aðalstyrktaraðili mótsins og þess vegna er þeirra merki á keppnistreyjunni.“

Bára segir stemninguna og íþróttaandann á leikdegi hafa verið einstakt, á vellinum fengu allir að njóta sín og það var hlutverk meistaraflokksleikmannana að kynnast nýju liðsfélögunum sínum hratt, reyna að átta sig á styrkleikum þeirra inn á vellinum og hvetja þau áfram. Algengasta spurning til Báru eftir leikina á laugardaginn snérust um hvenær þau fengju aftur að keppa með meistaraflokk.

Að lokum undirstrikar hún mikilvægi þess að öll börn og ungmenni hafi tækifæri til að æfa íþrótt sem þau hafa áhuga á, í sínu nærumhverfi. Hún segir að það sé hlutverk íþróttafélaga að skapa öruggt, skemmtilegt og styðjandi umhverfi þar sem börn upplifa að þau séu velkomin og skipti máli. Í sumum tilfellum getur hentað betur fyrir einstaklinga að æfa með liði eða íþróttafélagi sem sérhæfir sig að vinna með fötluðum, en það þarf samt ekki að vera fyrsta skrefið. Þess vegna er mikilvægt að öll íþróttafélög taki þessa umræðu um íþróttir fyrir alla og mikilvægi þess að allir upplifi sig velkomna í félagið. Því ef fyrsta upplifun barna eða foreldra er neikvæð þá getur það haft þau afleiðingar að það barni æfir engar íþróttir í mörg ár við ótta þess að upplifa aftur höfnun. Til þess að fá fleiri fatlaða inn í íþróttahreyfinguna þá þarf þetta að vera samfélagsverkefni þar sem hverfisfélög og íþróttafélög/lið fyrir fatlaða vinna saman.

Myndir/ Magnús Orri Arnarson

Sækja skyldar greinar
Load More By Thelma Grétarsdóttir
Load More In 2. TBL. 2025
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Ný stjórn IPC kjörin

Aukaaðalfundur Alþjóðlegu Paralympic-nefndarinnar var haldinn rafrænt fimmtudaginn 20. nóv…