Heim 2. TBL. 2025 Snævar Örn Kristmannsson: „Ég meikaði það!“

Snævar Örn Kristmannsson: „Ég meikaði það!“

10 min read
Slökkt á athugasemdum við Snævar Örn Kristmannsson: „Ég meikaði það!“
0
110

Grein eftir Gunnar Egil Daníelsson

Sundkappinn Snævar Örn Kristmannsson úr Breiðabliki/ÍFR var á alþjóðlegum degi fatlaðra 3. desember útnefndur íþróttamaður ársins 2025 hjá ÍF við hátíðlega athöfn á Grand Hóteli. Er það í fyrsta sinn sem hann vinnur til verðlaunanna.

„Þetta er svakaleg tilfinning. Það kemur mikið sjokk þegar maður fær símtalið, fær tilkynninguna og hugsar með sér: „Ég meikaði það!““ segir Snævar Örn.

Spurður hvort hann hafi búist við því að vera kjörinn íþróttamaður ársins segir Snævar Örn: „Ég náði náttúrlega svakalega góðum árangri, sérstaklega seinni helminginn á árinu. Ég veit það ekki, já og nei einhvern veginn.“

Árangurinn er svo sannarlega ekki af verri endanum; eitt heimsmet, fimm Evrópumet og 33 Íslandsmet. Hann keppir í S19 flokki einhverfra og bætti sig í öllum sínum helstu greinum á árinu, þar á meðal 50, 100 og 200 metra flugsundi, 50, 100 og 400 metra skriðsundi og 100 og 200 metra fjórsundi.

Á Íslandsmóti SSÍ setti Snævar Örn heimsmet í 50m flugsundi þegar hann synti á tímanum 26.69 sek. Á mótinu setti hann einnig þrenn Evrópumet; í 100m flugsundi á tímanum 59.77 sek, 200m flugsundi á tímanum 2:14.57 mín. og 100m fjórsundi á tímanum 1:06.65 mín.

Á Norðurlandamótinu í sundi setti Snævar Örn Evrópumet í tveimur greinum, 100m flugsundi með tímann 59.61 sek og 200m fjórsundi með tímann 2:25.75. Hann tók þátt í heimsmeistaramóti Virtus, í II3 flokki einhverfra, sem fór fram í Bangkok í Taílandi en þar náði hann í þrenn silfurverðlaun í 50m, 100m og 200m flugsundi og bætti einnig Íslandsmet í öllum þremur greinunum.

Var að negla á heimsmetið

Árið 2025 er væntanlega þitt besta ár á ferlinum hingað til?

„Já, þetta er orðið þannig að í hvert skipti sem ég bæti mig í mínum bestu greinum er ég kominn með Íslandsmetið. Og ég bætti mig 33 sinnum!“ segir Snævar Örn glaðhlakkalegur og bætir við um hvað liggi að baki árangrinum:

„Það er bara góð æfing. Það sem hvetur mig áfram í þessu eru aðrir sundmenn, að líta vel út bæði fyrir framan ÍF, sundsambandið og aðra sundmenn.“

Spurður hvernig það sé að eiga heimsmet og fjögur Evrópumet segir hann:

„Ég var að negla á heimsmetið þegar ég var á ÍM. Ég hugsaði að ég væri rosa nálægt því og ef ég get bætt mig og meikað það þá er það heimsmet. Svo gerðist það og þá var ég bara að bíða eftir því að það myndi verða tilkynnt.“

Snævar Örn hyggst halda í heimsmetið. „Ég á það núna. Það myndi örugglega blanda vel í því ef það myndi vera tekið af mér, þá væri það góð hvatning.“

Það nákvæmlega sama en hraðar

Á Íslandsmóti SSÍ í síðasta mánuði kepptu fatlaðir og ófatlaðir saman. Að keppa með þeim hætti er ekkert nýtt fyrir hann og þykir Snævar Erni slíkt keppnisfyrirkomulag vera góðs viti.

„Ég ólst upp við það að keppa við alla hina. Það er góð hvatning, hvetur þig til að synda hraðar. Ef þú ert ekki að miða þig við bestu, eða einhvern sem er betri en þú, þá kemstu hægar áfram,“ segir hann.

Aðspurður um framtíðarmarkmið sín vefst Snævari Erni ekki tunga um tönn.

„Ég er 19 ára og er búinn að segja að ég ætli að gera nákvæmlega það sem ég gerði og er búinn að keppa í, bara hraðar! Að gera enn betur. Það er alls konar eftir sem er hægt að fullkomna í þessu.“

Ekki keppt í flokknum á Paralympics

Flest íþróttafólk dreymir um að fá tækifæri til þess að keppa á Paralympics og Ólympíuleikum. Þó hann sé þar sannarlega ekki undanskilinn áttar Snævar Örn sig á því að það eina sem er í hans höndum er að halda áfram að standa sig vel, þar sem ekki er keppt í S19 flokki á Paralympics í Los Angeles 2028, að minnsta kosti eins og sakir standa.

„Flokkurinn minn keppir ekki á Paralympics. Eða það á eftir að setja það í gang svo spurningin er bara hvort ég keppi þar. Ég veit að þetta er langt og mjög erfitt ferli að reyna að bæta flokknum við af því að það eru mörg mót sem fara fram á undan og ég kemst hvort eð er ekki á.

Paralympics er stóri gæjinn. Það væri alveg frábært ef ég myndi geta keppt á Paralympics en maður þarf samt að vera svolítið raunhæfur í því líka,“ útskýrir Snævar Örn og bætir við að í millitíðinni reyni hann að koma sér á sem flest stór mót erlendis.

Gítarleikari sem lærir sagnfræði

Hvað gerirðu helst þegar þú ert ekki að synda?

„Ég er klassískur gítarleikari. Ég var í námi í MÍT og spila á gítarinn mér til gamans. Ég er í háskóla og held áfram í því námi. Ég er að læra sagnfræði akkúrat núna.

Það er verið að klára tímabilið og ef ég næ að vinna nógu vel fæ ég að stara á Excel-skjal í átta tíma. Það hljómar mjög spennandi,“ segir hann glettinn.

Snævar Örn er afar tónelskur. „Mér finnst mjög gaman að spila á hljóðfæri yfir höfuð. Ég get bjargað mér á píanóið, við erum með trommusett heima og ég get sungið eitthvað. Ég er ekki svakalegur í því en ég er allt í lagi!“ segir Snævar Örn Kristmannsson, íþróttamaður ársins 2025, að lokum.

Sækja skyldar greinar
Load More By Thelma Grétarsdóttir
Load More In 2. TBL. 2025
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Íþróttakona ÍF 2025 Ingeborg Eide: Viðtal

Grein eftir Gunnar Egil Daníelsson Á topp fimm yfir bestu augnablik ferilsins „Ég er mjög …