
Miðvikudaginn 1. október verður sýnd í Bíó Paradís heimildarmynd sem ber heitið Sigur fyrir sjálfsmyndina. Efni myndarinnar tengist heimsleikum Special Olympics á Ítalíu 2025, undirbúningi íslensku keppendanna, leikunum sjálfum og inntaki Special Olympics samtakanna. Þetta er fyrsta heimildarmynd Magnúsar Orra Arnarssonar sem sjálfur var keppandi á heimsleikum Special Olympics í Abu Dhabi árið 2019. Hann hefur frá 2019 unnið markvisst að því að gerast kvikmyndagerðarmaður og láta drauma rætast um störf á því sviði. Myndin gefur góða innsýn í starf Special Olympics samtakanna sem stofnuð voru af Eunice Kennedy Shriver árið 1968 og eru í dag með um 6 milljónir iðkenda um allan heim. Starfið byggir á gildum mannúðar, virðingar og jafnra tækifæra. Forsvarsmaður samtakanna í dag er Timothy Kennedy Shriver og Kennedy fjölskyldan er enn virkur bakhjarl í starfi samtakanna.
Íþróttasamband fatlaðra hefur verið umsjónaraðili starfs Special Olympics á Íslandi frá árinu 1989. Yfir 600 íslenskir keppendur frá aðildarfélögum ÍF hafa fengið tækifæri til þátttöku á vetrar og sumarheimsleikum Special Olympics í fjölmörgum greinum. Á leikunum á Ítalíu voru íslenskir 5 keppendur sem tóku kepptu í dansi, á skíðum og listhlaupi á skautum. Tveir grænlenskir keppendur fengu að nýta kvóta Íslands í skíðagöngu en þeir voru fyrstu fulltrúar Grænlands á heimsleikum Special Olympics.
Magnús Orri Arnarson hefur komið að samstarfi við Special Olympics á Íslandi frá árinu 2019. Magnús var þá í námi við Fjölbrautarskóla Suðurnesja og hafði sýnt áhuga á kvikmyndun og ljósmyndun. Special Olympics á Íslandi leitaði til Magnúsar, hvort hann vildi gera myndband um undirbúning íslensku keppendanna fyrir leikanna og þetta verkefni var upphaf að samstarfi sem stendur enn. Sjónvarpsteymi frá RUV, fulltrúar „Með Okkar Augum“ mættu á heimsleikana 2019 en það var vendipunktur hjá Magnúsi, sem fékk vinnu við þættina í kjölfar leikanna. Eitt leiddi af öðru og Magnús Orri hefur í dag vakið mikla athygli fyrir fagmennsku og flott myndbönd úr starfi Special Olympics á Íslandi og ÍF. Framkvæmdastjóri og fjölmiðlateymi Special Olympics í Evrópu hefur fylgst með verkefnum Magnúsar Orra fyrir Special Olympics á Íslandi og árið 2024 fékk hann tilboð um að vera ljósmyndari á Evrópuráðstefnu samtakanna. Í kjölfarið fékk hann boð um að mynda ungmennaráðstefnu, Youth Summitt sem haldin var í tengslum við leikana á Italíu og hefur fengið tilboð um fleiri verkefni á vegum Special Olympics í Evrópu í haust.
Myndin verður frumsýnd 30. september og fer síðan í almennar sýningar í Bíó Paradís daginn eftir. Hægt er að horfa á stiklu hér
Heiti samtakanna „Special Olympics“ er alþjóðlegt og aldrei má þýða þetta heiti.