Grein eftir Gunnar Egil Daníelsson
Magnús Orri Arnarson hlaut á alþjóðlegum degi fatlaðra 3. desember Hvataverðlaun ÍF þegar íþróttafólk ársins 2025 var útnefnt við hátíðlega athöfn á Grand Hóteli. Hvataverðlaun ÍF eru veitt einstaklingum, félagasamtökum, stofnun, fyrirtæki eða öðrum aðilum sem á framsækinn hátt hafa unnið í þágu íþróttastarfs fatlaðra, sem er óhætt að segja að eigi einmitt við um hann.
„Að vinna Hvataverðlaunin var ein stór upplifun. Ég bjóst ekkert mikið við þessu en þetta sýnir bara að fatlaðir geta gert alla hluti. Þetta sýnir líka hvað ég er að gera góða hluti fyrir samfélagið á Íslandi. Að vinna Hvataverðlaunin, þetta eru eiginlega stærstu verðlaun sem ég hef unnið. Ég er mjög ánægður með það,“ segir Magnús Orri.
Fyrr sama dag hafði hann einnig unnið til hvatningarverðlauna ÖBÍ. Magnús Orri var því sérlega sigursæll þennan tiltekna dag 3. desember.
„Það er mjög gaman. Verðlaun skipta mig ekki miklu máli en þetta sýnir samt að ég er að gera góða hluti og sýnir hvað fatlaðir geta gert. Verðlaunin eru aukaatriði,“ segir hann.
Fatlaðir geta átt fyrirtæki
Magnús Orri hefur frá árinu 2019 unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði myndbandagerðar og ljósmyndunar í samstarfi við Special Olympics á Íslandi og ÍF. Hann vann að kynningarefni fyrir heimsleika Special Olympics á Ítalíu í mars 2025 og sá um myndöflun á leikunum ásamt Jóni Aðalsteini Bergsveinssyni, en þeir skipuðu fyrsta „unified media team” Special Olympics.
Eftir leikana vann Magnús Orri að gerð vandaðrar heimildarmyndar um leikana, Sigur fyrir sjálfsmyndina, sem frumsýnd var í Bíó Paradís 30. september. Framtak hans og framgangur í kvikmyndagerð og ljósmyndun hefur vakið mikla athygli hjá samtökum Special Olympics og saga Magnúsar Orra er nú til umfjöllunar á miðlum SOI og SOE. Þar er sérstaklega horft til þess hvernig þátttaka í íþróttum getur haft jákvæð áhrif á daglegt líf og opnað nýjar dyr.
Það er óhætt að segja að það sé nóg að gera hjá þér. Hvernig heldurðu utan um þetta allt?
„Það gengur rosalega vel. Ég er með fyrirtæki sem heitir MOA Production og er bara að starfa sem verktaki. Ég er að taka upp myndbönd, mikið fyrir Íþróttasambandið, og hef verið að vinna sjálfstætt. Það er nóg að gera. Þetta sýnir að fatlaðir geta átt fyrirtæki og sýnir allt sem fatlaðir geta gert,“ segir hann.
Þá opnast stærri heimar
Magnús Orri hefur stigið hvert skrefið á fætur öðru fram á stóra sviðið og sagt sögu sína, þar sem hann segir þátttöku sína í íþróttastarfi og tækifæri í gegnum þann farveg hafa opnað leið út úr þunglyndi, kvíða og félagslegri einangrun.
„Ég var í fimleikum og keppti með Gerplu á Special Olympics 2019. Ég er náttúrlega með Tourette og einhverfu. Ég er með rosalega mikið af hljóðkækjum eins og staðan er núna. Ég hef alltaf verið með mikið af hljóðkækjum og ég hef alveg lent í einelti og öllu því sem hægt er að lenda í.
En að æfa íþróttir og sýna að ég geti gert þessa hluti sem fólk heldur að ég geti ekki gert, það opnar heima og brýtur niður múra. Ég var rosalega lokaður árið 2019 áður en ég gerði þetta kynningarmyndband fyrir leikana.
Ég var ekkert að fara út úr húsi, ég átti fáa vini og var lagður í einelti. En svo allt í einu fékk ég þetta tækifæri. Þess vegna skiptir rosalega miklu máli fyrir fólk með fötlun og bara allt fólk í heiminum að nýta öll tækifæri sem gefast.
Það eru svo margir sem nýta ekki öll tækifærin og segja: „Æ, ég geri þetta bara seinna. Æ, ég nenni þessu ekki núna.“ Bara gera og fara strax í málið, þá opnast stærri heimar,“ segir Magnús Orri af einlægni.
Skemmtilegast að segja sögur
Af öllu sem þú tekur þér fyrir hendur, hvað finnst þér skemmtilegast að gera?
„Mér finnst skemmtilegast að segja sögur. Ef ég er að taka viðtal við einhvern sem var að vinna eitthvað þá finnst mér gaman að segja söguna af honum. Að láta aðra skína. Ég er ekki aðalpersónan þegar ég er að taka upp, ég er að láta aðra skína,“ segir hann.
Á þeim nótum er Magnús Orri þegar farinn að huga að gerð næstu heimildarmyndar sinnar.
„Næsta markmið er mögulega sumarleikarnir sem verða haldnir í Síle 2027. Þeir verða haldnir í október þannig að ég hef nógu góðan tíma. Það er mitt næsta markmið að framleiða heimildarmynd um sumarleika Special Olympics, sem verður þá lengri og meira verkefni.“
Dreymir um Hollywood
Þrátt fyrir að hafa þegar áorkað miklu er ýmislegt sem hann langar að prófa í framtíðinni.
„Draumur minn þegar ég verð aðeins eldri en ég er núna, ég er náttúrlega 24 ára, þá langar mig rosalega mikið að starfa við Hollywood-myndir. Draumurinn minn er að fara til Los Angeles og upplifa hvernig er að vinna þarna.
Eins og Hildur Guðnadóttir, hún er mitt átrúnaðargoð. Ég lít rosalega mikið upp til hennar og þeirra verðlauna sem hún hefur fengið. Mig langar í raun að vera í sömu sporum og hún. Og kannski í besta falli að vinna Óskarinn eða Edduna einhvern tímann, að fá að standa í þessu stappi eins og ég er að gera núna,“ segir Magnús Orri.
Ekki eins og Dwayne Johnson
Með því að vera kominn af krafti inn á sjónarsviðið finnur hann vissulega fyrir aukinni athygli en kveðst þó ekki líta á sig sem frægan.
„Maður fær alveg oft að heyra „flottir sjónvarpsþættir.“ Ég er í þáttunum Með okkar augum á RÚV. Maður heyrir oft: „Flottir þættir, þú ert að standa þig vel og ert góð fyrirmynd.“ Ég tek það svo innilega til mín og er mjög þakklátur.
Ég persónulega lít ekki á mig sem frægan, ekki eins og Dwayne Johnson eða eitthvað þannig! Ég er bara frekar venjulegur,“ segir Magnús Orri en viðurkennir að það að fá jákvæða athygli gleðji hann. „Já, mjög. Það gefur mikið og hvetur mig meira til dáða.“
Þrátt fyrir að halda mörgum boltum á lofti við vinnu gætir Magnús Orri þess að njóta sömuleiðis í frítíma sínum.
„Ég er mikill sundkarl. Ég fer rosalega mikið í sund og svo er ég að hanga með vinum. Ég á góða vini sem ég get leitað til. Ég er oft að fara í sund, ég er að fara í bíó. Ég fer alls konar og nýti frítímann,“ segir Magnús Orri Arnarson að lokum.
