Heim 2. TBL. 2025 Íþróttakona ÍF 2025 Ingeborg Eide: Viðtal

Íþróttakona ÍF 2025 Ingeborg Eide: Viðtal

9 min read
Slökkt á athugasemdum við Íþróttakona ÍF 2025 Ingeborg Eide: Viðtal
1
71

Grein eftir Gunnar Egil Daníelsson

Á topp fimm yfir bestu augnablik ferilsins

„Ég er mjög stolt og þakklát. Það er mikill heiður að fá þennan titil. Þetta er stærsta viðurkenning sem ég hefði getað fengið fyrir vinnuna sem ég hef lagt í íþróttina í ár,“ segir frjálsíþróttakonan Ingeborg Eide Garðarsdóttir, sem var á alþjóðlegum degi fatlaðra 3. desember útnefnd íþróttakona ársins hjá ÍF við hátíðlega athöfn á Grand Hóteli.

Ingeborg, sem keppir fyrir Ármann í flokki F37 hreyfihamlaðra í kúluvarpi, segir viðurkenninguna hafa komið sér skemmtilega á óvart, en þetta er í fyrsta skipti sem hún er kjörin íþróttakona ársins. „Ég bjóst ekki beint við þessu. Þetta voru skemmtilegar fréttir sem ég fékk.“

Ingeborg, sem er 29 ára gömul, sló eigið Íslandsmet í flokkinum þegar hún kastaði 10,08 metra á Heimsmeistaramóti IPC í Nýju Delí á Indlandi í haust. Var það í fyrsta skipti á ferlinum sem Ingeborg kemst yfir tíu metrana, sem hún hefur lengi stefnt að.

„Það augnablik var hrikalega gott. Það er á topp fimm yfir bestu augnablikin á ferlinum. Líka af því að þetta er búið að vera frekar rólegt ár, fyrsta árið eftir Paralympics og fyrsta árið í undirbúningi fyrir nýja leika 2028.

Þá er allt svona frekar rólegt og ég upplifði rosa mikinn „ólympíublús“ eftir síðustu leika. Ég þurfti að koma mér svolítið rólega inn aftur og fara í gegnum þessar tilfinningalegu bylgjur sem koma og halda alltaf áfram. Halda áfram að mæta og halda áfram að vinna. Svoleiðis nær maður árangri,“ segir Ingeborg.

Í öðru og þriðja sæti

Auk þess að taka þátt í heimsmeistaramótinu gekk henni sömuleiðis afar vel tveimur mótum erlendis fyrr á árinu. Á Grand Prix í París í Frakklandi hafnaði Ingeborg í öðru sæti með kast upp á 9.00 metra. Á Grand Prix í Olomouc í Tékklandi varð hún í þriðja sæti með kast upp á 9.52 metra, en það mót var fyrsta kvenna Grand Prix mótið í sögunni hjá IPC.

Þrátt fyrir að segja árið hafa verið rólegt er Ingeborg ánægð með að hafa bætt þremur mótum erlendis í reynslubankann.

„Algjörlega. Þetta mót í Tékklandi, þetta er fyrsta kvennamót IPC og það var rosa gaman að fá að vera hluti af því að koma því af stað að vera einungis með kvennamót, af því að það vantar svo mikið konurnar inn í íþróttirnar að keppa. Svo endaði ég árið á þessu heimsmeistaramóti með smá sprengju,“ segir hún og telur árið 2025 því hafa verið gott á heildina litið.

Hef stækkað sem manneskja

Ingeborg tók þátt á Paralympics í París síðsumars 2024. Þar var gengið ekki eins og hún hafði vonast eftir en Ingeborg hafnaði í níunda og neðsta sæti í sínum flokki. Svekkelsið var mikið eftir mótið en með hjálp góðs fólks vann hún sig í gegnum það.

„Ég er mikið búin að vinna með íþróttasálfræðingi, Erlendur Egilsson er búinn að hjálpa mér mjög mikið. Ég hef sjálf stækkað rosa mikið sem manneskja í vinnunni með honum.

Það að halda áfram að mæta er í rauninni eina leiðin til þess að komast í gegnum þetta. Að halda áfram og einmitt vinna með fólki sem þekkir inn á þetta,“ útskýrir Ingeborg.

Spurð hvort hún hafi nýtt svekkelsið til þess að koma sterkari inn í árið sem nú er að líða sagði Ingeborg hreinskilin:

„Já og nei. Ég myndi eiginlega frekar segja nei því ég tók smá æðruleysi á þetta. Ég vann úr þessu móti og svo var það bara búið og þá fór maður að einbeita sér að næsta verkefni.“

Sumir myndu kalla mig nörd

Hún er á meðal tíu fremstu kastara heims í flokki F37 og fer ekki í grafgötur með það að sú staðreynd að Ingeborg geti einbeitt sér alfarið að íþróttinni sem afreksíþróttakona hjálpi mikið til. En hvernig heldur hún sér á meðal þeirra bestu?

„Með góðri vinnu með öllu teyminu sem ég er með. ÍF er með góðan stuðning á bak við mann, íþróttasálfræðingurinn og fleiri. Það er bara að nýta sér allt sem manni býðst til að ná lengra,“ segir Ingeborg.

Þegar hún er ekki sjálf að æfa er Ingeborg með ýmis járn í eldinum. „Ég vinn í skóla, er stuðningsfulltrúi í sérdeild og er svo að æfa hjá Ármanni. Ég hef á þessu ári verið að þjálfa hjá Ármanni. Ég hef verið með hóp, Allir með hóp, í frjálsum. Það er mjög gaman.“

Hvað gerirðu þér til skemmtunar utan íþróttarinnar?

„Sumir myndu kannski kalla mig nörd! Ég hef gripið í hekl og byggt Lego, einhver svona flókin Legosett. Svo horfi ég mikið á þætti, það er kannski mitt helsta áhugamál,“ segir Ingeborg Eide Garðarsdóttir, íþróttakona ársins 2025 hjá ÍF, að endingu.

Sækja skyldar greinar
Load More By Thelma Grétarsdóttir
Load More In 2. TBL. 2025
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Magnús Orri opnar heima og brýtur niður múra: Viðtal

Grein eftir Gunnar Egil Daníelsson Magnús Orri Arnarson hlaut á alþjóðlegum degi fatlaðra …