Borðtennismaðurinn Hákon Atli Bjarkason frá ÍFR er mættur út til Helsingborgar í Svíþjóð þar sem Evrópumeistaramótið í borðtennis fer fram næstu daga. Hákon Atli er eini fulltrúi Íslands á mótinu en með honum í för er Helgi Þór Gunnarsson formaður borðtennisnefndar ÍF og landsliðsþjálfari ÍF í borðtennis.
Keppni hefst á morgun fimmtudaginn 20. nóvember en Hákon keppir í sitjandi flokki 4-5. Í dag var dregið í riðla og lenti Hákon í eina fjögurra manna riðlinum í einstaklingskeppninni. Með honum í riðli eru Filip Nachazel frá Tékklandi, David Olsson frá Svíþjóð og Suleyman Vural frá Tyrklandi.
Hákon leikur tvo leiki á morgun og einn á föstudag, dagurinn á morgun hefst á viðureign gegn Tékkanum Filip kl. 10:10 að staðartíma eða kl. 09:10 að íslenskum tíma, síðari viðureign dagsins er svo kl. 15.30 að staðartíma eða 14.30 að íslenskum tíma gegn Tyrkjanum Suleyman. Á föstudag mætir Hákon heimamanninum David Olsson frá Svíþjóð. Hér er hægt að sjá stöðuna í riðlunum í flokki 4-5. Sýnt verður beint frá mótinu á Youtube á rásinni „IttfWorld.”
Mynd/JB: Hákon Atli við æfingar í kvöld í keppnishöllinni í Helsingborg.
