Heim 2. tbl 2022 Ég hef bara svo gaman að þessu

Ég hef bara svo gaman að þessu

27 min read
Slökkt á athugasemdum við „Ég hef bara svo gaman að þessu
1
727

Bogfimikappinn Þorsteinn Halldórsson er í hörkuformi um þessar mundir. Hann hækkaði sig verulega á heimslistanum og er til alls líklegur á nýju ári. Næsta sumar gæti skapast tækifæri til að vinna sér inn keppnisrétt á Paralympics árið 2024 en leikarnir verða haldnir í París. Hvati settist niður með Þorsteini og spurði hann fyrst hvað standi upp úr í íþróttinni á árinu sem er að líða.

„Mér hefur gengið vel að keppa og það sem stendur líklega upp úr er að ég setti Íslandsmet bæði í flokkum fatlaðra og ófatlaðra,“ segir Þorsteinn en hann fékk á árinu mjög góða aðstöðu til að æfa innandyra á veturna í Miðgarði, nýja íþróttahúsinu í Garðabæ, og segir það hafa skilað sér.

„Í febrúar fékk ég góða aðstöðu til að æfa. Ég get skotið af fimmtíu metra færi á æfingum. Varðandi stóru mótin þá breyttum við aðeins um taktík og mættum fyrr á keppnisstaði erlendis. Áður kom ég alltaf bara daginn fyrir mót og það var stressandi. Ég fer í staðinn tveimur til þremur dögum fyrir mót og maður er búinn að ná úr sér hrollinum og venjast hitanum með því að æfa á keppnisstaðnum. Á árinu keppti ég til dæmis í fjörtíu stiga hita bæði í Dubai og á Ítalíu. Síðasta sumar fór ég úr 39. sæti upp í 24. sæti heimslistans sem er nokkuð mikið stökk og því er hægt að segja að á heildina litið hafi mér gengið vel á árinu.“

Stærsta mótið hjá Þorsteini á liðnu ári var HM í Dubai. „HM var nokkuð snemma á tímabilinu eða í febrúar. Mér gekk bara vel þar og var á meðal tíu efstu en átti eftir að bæta mig mjög þegar leið á árið. Besti árangurinn erlendis á árinu var á móti í Tékklandi þar sem ég var mjög nálægt verðlaunasæti.“

Á nýju ári má gera ráð fyrir því að Þorsteinn verði með næg verkefni.  HM verður haldið aftur á nýju ári og er þá tvö ár í röð en líklega er það vegna þess að alls kyns mótshald riðlaðist í heimsfaraldrinum.  

„HM verður stærsta mótið á næsta ári en ég er vanur að fara á stórmótin og mótið í Tékklandi. Einnig eru mörg önnur alþjóðleg mót erlendis en ég hef ekki farið á mörg þeirra. Það væri gott að keppa oftar erlendis til að öðlast meiri keppnisreynslu.  Eftir að hafa skotið mjög vel að undanförnu þá stefni ég að því að ná í verðlaun á alþjóðlegu móti á næsta ári. Ég hef fulla trú á að það gangi eftir.

HM verður í júlí og maður reynir að toppa þá en það spurning á hvaða mótum ég keppi áður en kemur að HM. Mér skilst reyndar að einhver áhugasamur einkaaðili sé að skoða að halda fjölgreinamót í Hollandi og þar eigi bogfimi að vera ein keppnisgrein. Einhvers konar minni útgáfa af Paralympics. Það gæti verið mjög spennandi en ég veit ekki hvort af því verði.“

Önnur höndin hefur verið í vasanum 

Þorsteinn er Akureyringur en þar fæddist hann 10. mars árið 1970 en fluttist til Reykjavíkur um tvítugt.

„Ég er fæddur og uppalinn á Akureyri en flutti til Reykjavíkur árið 1989. Ég fæddist með axlarklemmu og hef vanist því að nota hægri hendina lítið. Hún hefur bara verið í vasanum og það eru til dæmi um krakka sem voru með mér í skóla sem vissu ekki að það væri eitthvað að mér í hendinni. En auðvitað var margt sem maður gat ekki gert en einnig margt sem maður gat gert. Að geta bara notað aðra höndina háir manni í einhverju á hverjum einasta degi en svona hefur þetta bara alltaf verið. Ég held að það væri verra ef þetta hefði gerst síðar á lífsleiðinni,“ segir Þorsteinn en hann var orðinn fertugur þegar hann fékk áhuga á bogfimi.

„Ég var á Reykjalundi í endurhæfingu og þar var maður í hjólastól sem fór að tala um löngun sína til að fara á bogfiminámskeið. Ég hafði ekki hugmynd um að bogfimi væri stunduð á Íslandi en fannst þetta forvitnilegt og ákvað að fara með honum. Svo fór að þetta hentaði honum ekki og gekk ekki almennilega upp vegna ferðaþjónustu fatlaðra. Mér fannst þetta strax rosalega skemmtilegt og hélt áfram. Ég heyrði einhvern tala um að menn ættu bara að stefna hátt og reyna að komast á Ólympíumótið [Paralympics] og þá gerði ég það bara líka,“ segir Þorsteinn og hann heimsótti skrifstofu Íþróttasambands fatlaðra til að kynna sér málið.

„Þeir [starfsmenn ÍF] voru að tala um þessa flokka og ýmislegt fleira en ég vissi ekkert um þetta. Ég þurfti að fara í flokkun þar sem fötlunin er metin og þeir sendu mig á mót árið 2014 sem var HM í Þýskalandi. Ég og konan fórum þangað og þá kunni ég varla reglurnar. Ég vissi lítið hvernig skotklukkann virkaði og hafði ekkert spáð í því hvað menn hefðu mikinn tíma til að ljúka við að skjóta.  Sem dæmi um hversu litla þekkingu ég hafði á bogfimi, og boganum sjálfum, þá bað ég konuna rétt áður en keppnin hófst að þrífa glerið í sigtinu vegna þess að það rigndi mikið. Svo hún tók það úr og þurrkaði og setti aftur í sigtið.Svo þegar ég byrja að keppa fóru örvarnar hátt og til hliðar því punkturinn til að miða með og er settur á glerið var ekki alveg í miðjunni og því ekki á sama stað eftir þrifin. Við vissum bara ekki betur. Þetta var ótrúlega fyndið og sýnir kannski hvað þetta gerðist hratt hjá mér til að byrja með.

Lenti undir bíl í aðdraganda Paralympics

Eins og Þorsteinn nefnir þá fór hann býsna fljótt að keppa í íþróttinni og líklega býr hann yfir meðfæddum hæfileikum í bogfimi því hann var kominn inn á stærsta mótið fyrr en nokkurn grunaði. Haustið 2016 keppti hann á Paralympics í Ríó í Brasilíu og tókst að vinna sér inn keppnisrétt á leikunum jafnvel þótt hann hafi slasast um sumarið.

„Ég var á leið á úrtökumót í Frakklandi þegar ég slasaðist hér heima. Ég var á leið á æfingu í Bogfimisetrinu um hálfum mánuði fyrir mótið. Ég og félagi minn vorum á leið á æfingu snemma um morguninn. Fyrir framan húsið er innkeyrsla sem liggur meðfram Sæbrautinni. Ég legg bílnum og er að ganga í átt að húsinu með bogatöskuna á bakinu. Félagi minn ætlar að bakka inn bílaplanið á pallbíl og ég sá hann koma. Ég ætlaði að hlaupa yfir planið og hélt að hann sæi mig. En þá gaf hann í og ég sá bílinn bara koma á mig. Ég náði ekki að koma mér undan og áður en ég vissi af var ég kominn undir bílinn. Á Sæbrautinni var svakaleg umferð og þar byrjuðu ökumenn að flauta á fullu. Þá brá félaga mínum en hann taldi að hann hefði bakkað á ruslatunnur eða eitthvað slíkt. Þá fór hann af stað aftur og keyrði áfram og keyrði yfir mig allan aftur,“ segir Þorsteinn og hlær þegar hann rifjar atvikið upp en hann slapp furðu vel þótt undirbúningurinn fyrir Paralympics hafi riðlast aðeins.

„Sjúkrabíll kom fljótlega og þeir sem komu á staðinn óttuðust að ég væri með innvortis meiðsli. Ég var með svakalega kúlu á höfðinu en slapp við alvarlegt höfuðhögg. Það versta var að fæturnir voru illa farnar eftir að hafa orðið undir bílnum og öxlin var öll rifin. Þar sem ég dróst með bílnum þá var ég einnig allur rispaður að aftan. Þetta var auðvitað svakalegt en ég var ákveðinn í að keppa á mótinu í Frakklandi þótt ég væri mjög verkjaður. Þar var ég bara einu sæti frá því að vinna mér sæti í Ríó en fór í framhaldinu til Tékklands og vann mér þar inn keppnisrétt á leikunum með því að hafna í 2. sæti þar. Ég var einn þar úti og ég held að enginn hafi trúað því að ég myndi ná þessu þannig að það var mjög gaman.“

Afdrifarík mistök á De Gaulle flugvellinum

Þegar leið að Paralympics í Tókíó setti heimsfaraldurinn strik í reikninginn hjá mótshöldurum eins og margir vita. Fóru leikarnir fram haustið 2021 en ekki 2020 eins og fyrirhugað var. Þorsteinn var orðinn öllu reyndari keppnismaður og hafði skotið nægilega vel til að komast inn á leikana. Sagan af því hvernig hann vann sig inn á leikana í Ríó, eftir mikið mótlæti, er skemmtileg en sagan sem tengist leikunum í Tókíó er ekki eins skemmtileg. Hann þurfti að fara í úrtökumót eins og gengur og fór til Tékklands. Vegna heimsfaraldursins voru haldin ö til að skera úr um hverjir kæmust á Paralympics.

„Ég vissi hvar ég stóð og vissi að ég átti mjög mikla möguleika gegn þessum andstæðingum. En þegar ég fór til Tékklands þá skiluðu töskurnar sér ekki. Ég beið eftir því að farangurinn skilaði sér og horfði á hina æfa. Töskurnar áttu að koma daginn eftir en það gerðist ekki og ég missti af af fyrsta deginum. Einnig missti ég af næsta degi og þá var ljóst að töskurnar myndu ekki skila sér. Ég þurfti því einfaldlega að fara heim sem var auðvitað alveg ömurlegt,“ segir Þorsteinn og hann er ósáttur við viðbrögð Icelandair þegar málið kom upp en hann hafði flogið með flugfélaginu til Parísar og millilent þar.

„Þau sögðust vera að gera allt sem hægt væri en ég held að það hafi ekki verið rétt, enda höfðu þau  sex daga til að koma töskunum til mín. Talað var um að töskurnar væru ómerktar svo ég sendi mynd af töskunum en fékk engin viðbrögð. Þegar ég endurheimti töskurnar loksins sá ég að allar merkingar voru á sínum stað og töskurnar voru því vel merktar. Ég gat heldur ekki verið að hamast í þessu á flugvellinum í Prag því ég var staðsettur á mótinu og það tók tvo klukkutíma að keyra á flugvöllinn. Þar sem því var lofað daglega að töskurnar væru á leiðinni þá fóru sjálfboðaliðar sem störfuðu við mótið á hverjum degi til Prag til að sækja farangurinn minn sem aldrei kom. Þetta var því ekki skemmtilegt fyrir mótshaldarana heldur. Mér voru ekki boðnar neinar bætur né fékk ég afsökunarbeiðni frá Icelandair sem mér þótti miður.  Ég hafði tekið mér frí frá vinnu í tvo mánuði til að æfa fyrir mótið  enda var allt undir. Þetta var eina tækifærið til að vinna sér sæti á leikunum í Tókíó.“

Með pínu móral yfir því að þéna ekki

Þrátt fyrir vonbrigðin í fyrra þá setur Þorsteinn markið ótrauður á leikana í París árið 2024. Hann segist vera á fínum aldri miðað við það sem gengur og gerist í bogfimi. Þar eru þeir bestu í heimi ekki útbrunnir á fertugsaldri heldur verða menn gjarnan betri með hærri aldri og meiri yfirvegun. Þorsteinn æfir grimmt í aðstöðunni sem hann hefur í Miðgarði og hefur aldrei skotið betur en undanfarnar vikur.

„Ég er aldrei undir 685 og hef náð mest 706 af 720 mögulegum stigum á æfingum.“


„Ég er aldrei undir 685 og hef náð mest 706 af 720 mögulegum stigum á æfingum. Íslandsmetið sem ég setti hjá ófötluðum í sumar var 677 til samanburðar. Mér gengur því rosalega vel. Þótt ég sé bara einn á æfingum  þá hef ég bara svo gaman að þessu að ég mæti á æfingar alla daga. Auk þess hef ég góðan stuðning frá Óla Magg og þeim hjá ÍF,“ segir Þorsteinn en hann hann æfir í raun eins og atvinnumaður í vetur. Er nánast heilan vinnudag á æfingu og er þar að auki í einkaþjálfun hjá Arnari Grant, gömlum vini frá Akureyri.

„Ég var á vinnumarkaði áður en heimsfaraldurinn skall á en hef ekki verið í vinnu undanfarið. Ég er lélegur í skrokknum en væri alveg til í að vinna hálfan daginn við eitthvað sem hentar. Á móti kemur þá get ég sinnt fjölskyldunni ásamt íþróttinni. Ef ég myndi vinna fyrri part á daginn þá þyrfti maður líkast til að æfa á kvöldin og þá er maður ekki eins vel upplagður,“ segir Þorsteinn og bætir við á alvarlegri nótum að því fylgi samviskubit gagnvart fjölskyldunni að einbeita sér svona mikið að íþróttinni.

„Auðvitað myndi ég vilja leggja meira til heimilisins og vera á vinnumarkaði, en fjölskyldan hefur skilning á þessu þó ég sé alltaf með pínu móral að leggja ekki meira til. Ungt íþróttafólk er kannski í námi með en ef maður er hvorki í skóla né vinnu þá þykir það pínu skrítið,“ segir Þorsteinn hefur verið í sambúð með Margréti Kristínu Indriðadóttur í áratugi og á þrjú börn á aldrinum 17 til 32 ára.

„Ef ég gæti fengið styrk upp á 150-200 þúsund á mánuði þá væri þetta miklu auðveldara en margt í sambandi við íþróttina er kostnaðarsamt“

„Ef ég gæti fengið styrk upp á 150-200 þúsund á mánuði þá væri þetta miklu auðveldara en margt í sambandi við íþróttina er kostnaðarsamt. Á móti myndi maður þá skila inn æfingatímum og sýna fram á að maður væri að sinna íþróttinni. Ég kann eiginlega ekki við að biðja ÍF um meira því ég hef fengið mikla aðstoð þar. Ég reyndi um tíma að ná í styrki hjá fyrirtækjum en það borgar sig eiginlega ekki að eyða miklum tíma í það. Ég sendi kannski bréf á fjölda fyrirtækja og það skilaði kannski 20 þúsund eða 50 þúsund krónum samtals,“ segir Þorsteinn Halldórsson.

Sækja skyldar greinar
Load More By Anna Karólína Vilhjálmsdóttir
Load More In 2. tbl 2022
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Ólafur Ólafsson — Kveðja

Jarðarför Ólafs Ólafssonar, formanns íþróttafélagsins Aspar fór fram í kyrrþey föstudaginn…