Ágæti lesandi
Ég vil byrja þetta ávarp mitt á að hrósa Alþingi Íslands fyrir að staðfesta stefnu Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra með því að lögfesta stefnuna á Íslandi. Þessu fagna allir þeir sem barist hafa fyrir réttindum fatlaðra í gegnum tíðina.
Við sem erum í forystusveit fyrir íþróttir fatlaðra munum í framtíðinni eiga auðveldara með að nálgast hið opinbera, ríki, sveitarfélög og stofnanir þeirra með erindi sem lúta að réttindum til þjónustu og kaupa á búnaði sem sérhannaður er til íþrótta- og tómstunda þátttöku.
Við fögnum einnig því að ný ríkisstjórn samþykkti að framhalda Allir með! verkefninu til næstu þriggja ára. Nú um áramótin hefði því átt að ljúka, eftir að hafa verið í gangi í þrjú ár, en það er mat okkar og allra sérfræðinga sem að verkefninu koma að nauðsynlegt væri að framlengja því þar sem enn er talsvert verk óunnið. Ég vil hér þakka ráðuneytunum þremur sem að því koma fyrir samstarfið og viljann til að halda verkefninu gangandi í önnur þrjú ár. Ráðuneytin þrjú eru félagsmálaráðuneyti, barna- og menntamálaráðuneyti og heilbrigðismálaráðuneyti. Verkefið er samstarfsverkefni þessara þriggja ráðuneyta og UMFÍ, ÍSÍ og ÍF sem og Þroskahjálp og ÖBÍ.
ÍF og ÖBÍ undirrituðu formlegan samstarfssamning á Allir með deginum, sem færir ÍF styrk uppá kr. 4 milljónir á ári í þrjú ár sem tengist verkefninu að hluta og styður við þróunarsvið ÍF.
Staða Allir með! verkefnisins er jákvæð í alla staði, tölfræðilega höfum við á þessum þremur árum náð að tvöfalda iðkenda fjölda fatlaðra barna á aldrinum 6 til 18 ára þ.e. úr 4% í upphafi í rúmlega 8% við síðustu skil á upplýsingum íþróttafélaga inn í „Sport abler“ sem er skráningarkerfi íþróttahreyfingarinnar.
Ég vil þakka öllu því frábæra fólki sem komið hefur að verkefninu Allir með! fyrir þeirra framlag og stuðning.
Að öðru leyti hefur árið 2025 verið fremur venjubundið fyrsta ár eftir Paralympics ár, haldið var Sambandsþing ÍF í lok apríl þar sem farið var yfir starfsemina síðustu tvö árin og framtíðin kortlögð og ný stefnumörkun samþykkt. Þá var framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs til 40 ára, Ólafur Magnússon, kvaddur með móttöku í lok þings. Ólafur ákvað á síðasta ári að fara á eftirlaun um áramótin síðustu, hann féllst á að sinna afmörkuðum verkefnum fram í maí síðastliðinn en þá lauk hann endanlega störfum fyrir ÍF. Hafðu mikla þökk fyrir þitt framlag til íþrótta fatlaðra Ólafur Magnússon.
Ég vil þakka samstarfsaðilum samstarfið á árinu, ÍF hefur náð að endurnýja samstarfssamninga við alla þá sem voru með lausa samninga að afloknum Paralympics leikunum og þakka ég innilega fyrir þann velvilja og traust sem þið berið til ÍF.
Sjálfboðaliðum ÍF vil ég þakka kærlega, án ykkar væri starfið ekki jafn blómlegt og öflugt.
Ég vil hér að lokum óska landsmönnum árs og friðar, megið þið öll eiga gleðileg jól og gott og farsælt nýtt ár. Megi nýtt íþróttaár verði okkur öllum til heilla!
Þórður Á. Hjaltested, formaður ÍF
