Laugardalshöllinn iðaði af lífi og fjöri laugardaginn 8. nóvember þegar ALLIR MEÐ leikarnir fóru fram. ALLIR MEÐ verkefnið hófst árið 2023 með samstarfi ÍF, ÍSÍ og UMFÍ þar sem markmið var að gefa öllum börnum tækifæri til þátttöku í íþróttastarfi. Verkefnið var í upphafi þróað í tengslum við Farsældarverkefni um velferð barna með stuðningi félagsmálaráðuneytis í samstarfi ÍF, ÖBÍ og Þroskahjálp.
Sá markhópur sem horft var til voru börn og ungmenni á grunnskólaaldri sem af einhverjum ástæðum hafa ekki tekið þátt í íþróttastarfi. Þar var horft sérstaklega til fatlaðra barna sem í upphafi verkefnis voru aðeins 4% iðkenda í skráðu íþróttastarfi á Íslandi. Strax í upphafi 2023 var ráðinn verkefnastjóri, Valdimar Gunnarsson og hann hefur lagt áherslu á að setja upp viðburði þar sem kynntar eru íþróttagreinar og fjölskyldur geta komið saman. ALLIR MEÐ leikarnir er árlegur viðburður þar sem allir geta prófað valdar íþróttagreinar auk þess sem fleiri greinar eru kynntar á sérstöku kynningarsvæði. Nú var þátttakendum boðið að prófa 10 íþróttagreinar auk þess sem sett var upp leikjasvæði í umsjón þriðja árs nema í íþróttafræði í HÍ sem komu að verkefninu í tengslum við námskeið um fjölbreytileikann í íþróttafræði HÍ. Greinar sem í boði voru 2025 voru badminton, borðtennis, fimleikar, frjálsar íþróttir, handbolti, jazzballet, keila, knattspyrna, körfubolti, píla. Stefnt hafði verið að þvi að kynna klifur en sérstök kynning verður á kilfri síðar í samstarfi við forsvarsfólk íþróttarinnar sem er mjög áhugasamt um að virkja alla til þá
Mótsstjórinn, Hansina Þóra Gunnarsdóttir stýrði dagskrá af mikilli röggsemi og sá til þess að hóparnir fengju góðan tima til að prófa allar greinar. Það voru margir litlir sigrar sem náðust þennan dag og gleði skein úr hverju andliti. Það var sérlega ánægjulegt að fylgjast með þeirra gleði sem ríkti meðal aðstandenda sem fylgdust með sínu barni eða ungmenni takast á við ný verkefni og stíga út fyrir þægindarammann skref fyrir skref. Þau Sóli og Sóla sáu til þess að gleðin væri við völd og börnin kepptust við að fá mynd af sér með parinu.
Ýmsar kynningar fóru fram m.a. kynning á skautagreinum, júdó, hjólastólakörfubolta og fleiri greinum. Íþróttafélagið Ösp hefur látið vinna myndbönd um einstaka greinar og fólk gat fylgst með myndböndum og kynnt sér starf félagsins. Gló stuðningsfélag kynnti sína starfsemi þar hefur verið einstakur áhugi á að hvetja börn til íþróttastarfs.
Starfsfólk Laugardalshallar sá til þess að allt gekk upp og eiga þakkir skilið fyrir einstakt samstarf
Þeir fjölmörgu sem kom að aðstoð við leikana eða styrktu verkefnið fá innilegar þakkir fyrir.
Samstarf við Lionshreyfinguna
Fulltrúar lionsklúbbsins ÚA Mofsfellsbæ og Fold Grafarvogi voru til aðstoðar við leikana og það voru vaskar konur sem stjórnuðu afhendingu veitinga í matarhléinu. Þær sáu til þess að allir fóru saddir og sælir til áframhaldandi æfinga og það tók þær örskotsstund að ganga frá öllu í matsalnum að loknu matarhléi. Þvílíkir liðsmenn sem þær voru þessar frábæru konur. Aðkoma þeirra að deginum tengist samstarfssamningi alþjóðalionshreyfingarinnar við Special Olympics á Íslandi en ÍF og Special Olympics á Íslandi hafa notið stuðnings lionsklúbba á Íslandi í áratugi.
Undirritun viljayfirlýsingar þriggja ráðherra

Í tengslum við leikana 8. nóvember undirrituðu þrír ráðherrar, mennta og barnamálaráðherra, Guðmundur Ingi Kristsinsson, heilbrigðisráðherra Alma Möller og félags og húsnæðismálaráðherra, Inga Sæland viljayfirlýsingu um áframhaldandi stuðning við verkefnið. Alls 20 milljónir hvert ráðuneyti eða 60 milljónir árin 2026 – 2028. Þessi áfangi er gríðarlega mikilvægur því þó margt hafi áunnist er ennþá langt í land. Meginmarkmið nú er að fylgja eftir auknu samstarfi innan íþróttahreyfingarinnar, samstarfi við sveitarfélög og ríki og ná að virkja alla til sameiginlegrar ábyrgðar gagnvart þeim markhópi sem horft er til. Áfram er horft til þess samstarfs sem sett var á fót 2023 þar sem ÍF, ÍSÍ og UMFÍ eru bakhjarlar verkefnis í samstarfi með ÖBÍ og Þroskahjálp sem stóðu að því að setja verkefnið á fót með ÍF. Allir þessir aðilar munu leggjast á eitt við að styðja verkefnastjórann áfram til góðra verka en hann býr yfir einstökum eldmóði og nær að virkja fólk til samstarfs um allt land. Takk allir sem hafið lagt þessu mikilvæga verkefni lið.
Undirritun samnings við ÖBÍ

Í tengslum við leikana undirrituðu Alma Ýr Ingólfsdóttir formaður ÖBÍ og Þórður Árni Hjaltested formaður ÍF samstarfssamning sem felur í sér stuðning við þróunarsvið ÍF og verkefnið ALLIR MEÐ næstu þrjú árin, alls 12 milljónir eða 4 milljónir árin 2026 – 2028. Málefnahópur ÖBÍ um málefni barna lagði fram mikilvægar upplýsingar á fyrstu skrefum í þróun ALLIR MEÐ verkefnisins þegar leitað var eftir sögum af upplifun foreldra fatlaðra barna í íþróttastarfi. Það er því sérlega ánægjulegt að njóta þessa styrks sem horfti til þess markhóps sem verkefnið snýr að. Takk ÖBÍ









































