Aukaaðalfundur Alþjóðlegu Paralympic-nefndarinnar var haldinn rafrænt fimmtudaginn 20. nóvember. Á fundinum voru sjö aðalstjórnarmenn kjörnir til næstu fjögurra ára.
Á aðalfundi IPC í september var Andrew Parson frá Brasilíu endurkjörinn forseti í þriðja sinn ásamt Leilu Marques Mota frá Portúgal og John Peterson frá Danmörku sem voru kjörin varaforsetar. Vegna tímaskorts var kjöri aðalstjórnarmanna frestað til aukaaðalfundarins nú í nóvember.
Sjö aðalstjórnarmenn kjörnir
Eftirfarandi einstaklingar hlutu kjör og munu sitja í stjórn IPC til ársins 2029
Debra Alexander
Chelsey Gotell
Fernando Riaño
Mohamed Dubij Alkhalifa
Robyn Smith
Miki Matheson
Bradley Snyder
Þau bætast í stjórnina ásamt Andrew, Leilu og John en einnig sitja í stjórn formaður íþróttanefndar IPC, Vladyslava Kravchenko og varaformaður nefndarinnar Josh Dueck. Alls voru 23 frambjóðendur í kjöri um þessi sjö sæti.
Stjórnin er nú skipuð sex konum og sex körlum og fulltrúar allra fimm heimsálfa eiga sæti. Þar að auki eru átta fatlaðir íþróttamenn og Paralympic farar í stjórninni sem tryggir að sjónarhorn íþróttafólks sé í forgangi.
Þórður Árni Hjaltested, formaður ÍF sat fundinn fyrir Íslands hönd og segir niðurstöðurnar jákvæðar. Hann nefnir að Ísland og Norðurlöndin hafi verið þokkalega sátt við þessa niðurstöðu og að markmiðum hafi verið náð að mestu leyti. Við erum vongóð um að þetta verði öflug stjórn til næstu fjögurra ára segir Þórður.
