Laugardalshöllin var full af lífi í dag, 8. nóvember, þegar Allir með leikarnir fóru fram í annað sinn. Yfir 100 börn með fötlun tóku þátt og prófuðu 11 mismunandi íþróttagreinar í skemmtilegu og hvetjandi umhverfi.

Á svæðinu var gríðarlega góð stemning, lukkudýrin Sóli og Sóla voru á staðnum að heilsa upp á þátttakendur og auk þeirra mættu mennta- og barnamálaráðherra, heilbrigðisráðherra og félagsmálaráðherra á svæðið. Ráðherrar tóku þátt í leikunum ásamt börnunum og skrifuðu síðan undir viljayfirlýsingu um stuðning við verkefnið næstu þrjú árin, til ársins 2028. Einnig var undirritaður samstarfssamningur milli ÖBÍ og Íþróttasambands fatlaðra um verkefnið.


Leikarnir hefðu ekki farið svona vel fram án öflugra sjálfboðaliða. Meðal þeirra voru Lionskonur úr ÚA Mosfellsbæ og Fold Grafarvogi sáu um veitingar í hádeginu og íþróttafræðinemar frá Háskóla Íslands tóku þátt í leikunum.

Myndir/Magnús Orri Arnarson
