Heim 2. TBL. 2025 David Evangelista tekinn við sem framkvæmdastjóri Special Olympics International

David Evangelista tekinn við sem framkvæmdastjóri Special Olympics International

8 min read
Slökkt á athugasemdum við David Evangelista tekinn við sem framkvæmdastjóri Special Olympics International
0
96

David Evangelista sem hefur verið framkvæmdastjóri Special Olympics í Evrópu undanfarin ár hefur nú tekið við sem framkvæmdastjóri Special Olympics International. Special Olympics á Íslandi hefur átt sérlega gott samstarf við David sem kom til Íslands árið 2024 þar sem undirrituð var viljayfirlýsing um samstarf þjóða um inngildingu, sem er alþjóðlegt verkefni SOI. David hefur stutt mjög vel við sérverkefni sem Special Olympics á Íslandi hefur unnið að og ekki síst hefur hann átt stóran þátt í að skapa tækifæri fyrir hann Magnús Orra Arnarsson til verkefna á vegum Special Olympics í Evrópu.
David mun án efa styðja áfram við það sem viðkemur starfi Special Olympics á Íslandi en starfið hjá alþjóðasamtökunum verður mjög krefjandi. Við óskum David alls hins besta í spennandi verkefnum framundan og þökkum frábært samstarf.

David Evangelista og Magnús Orri Arnarson

Special Olympics samtökin (SOI) voru stofnuð 1968 af Eunice Kennedy Shriver en sonur Eunice, Timothy Kennedy Shriver er forsvarsmaður samtakanna í dag. Þetta hófst sem sundæfingar í garði Kennedy fjölskyldunnar en í dag eru þetta ein stærstu samtök heims með um 6 milljónir iðkenda. Systir Eunice, hún Rose Kennedy var þroskahömluð og hafði ekki sömu tækifæri og önnur börn þegar kom að þátttöku í íþróttum og var það hvati að stofnun Special Olympics. Í upphafi var horft til íþróttastarfs en samtökin leggja sífellt meiri áherslu á samstarf um almenn lífsgæði og aðgengi allra að menntun, heilsugæslu og möguleikum á vinnumarkaði.

Í dag einblína samtökin á inngildingu og „Unified“ eða keppni fatlaðra og ófatlaðra sem er vaxandi þáttur í starfinu. Þátttaka er í dag miðuð við „learning disability“ en ekki þroskahömlun og því hafa sífellt fleiri nýtt tækifæri til þátttöku á leikum Special Olympics.

Forsvarsmaður Special Olympics, Timothy Kennedy Shriver

Íþróttasamband fatlaðra hefur verið umsjónaraðili Special Olympics frá árinu1989 en árlega þarf að endurnýja leyfi og fylgja ströngum reglum aðildar að SOI. Tækifærin sem hafa skapast eru fjölmörg og hafa alls um 600 íslenskir keppendur tekið þátt í heimsleikum Special Olympics í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu. Ísland velur keppendur í samráði við aðildarfélög ÍF, út frá mætingu á æfingar, framförum og félagslegri hegðun en ekki árangri. Allir eiga því möguleika á að vera tilnefndir leggi þeir sig fram.

Sumarheimsleikar Special Olympics er einn stærsti íþróttaviðburður heims eða um 7.000 keppendur. Vetrarheimsleikar eru minni að umfangi en Ísland hefur nýtt þau tækifæri sem þar hafa gefist.

Einkenni leika Special Olympics er að keppendur fara í gegnum sérstakar undanrásir þar sem valið er í styrkleikaflokka. Í úrslitum er keppt við jafningja, verðlaunapeningar eru fyrir fyrstu þrjú sætin og verðlaunaborðar fyrir fjórða til áttunda sæti. Mikil samkennd og vinátta ríkir á leikunum og margir sjálfboðaliðar koma langt að. Í tengslum við leikana var haldin ungmennaráðstefna byggð á samstarfi fatlaðra og ófatlaðra. Inngilding var meginþema og ungt fólk víða úr heiminum var með mjög áhugaverð innlegg.
Special Olympics samtökin hafa skorað á þjóðir til alþjóðasamstarfs um inngildingu og er Ísland eitt af þeim löndum sem hefur staðfest hefur viljayfirlýsingu um samstarf. Árið 2024 hófst innleiðing „Unified Schools“ á Íslandi, sem er eitt af verkefnum þessa samstarfs. Í tengslum við leikana var leiðtogafundur þar sem leiðtogar Special Olympics samtakanna í 100 löndum komu saman og ræddu markmið og helstu áskoranir í starfinu.

Hér eru nokkur af verkefnum sem Ísland hefur þróað í samstarfi við Special Olympics samtökin

  • Alþjóðaverkefnið LETR. Samstarfsverkefni Special Olympics samtakanna og lögreglunnar. Ísland hóf þátttöku árið 2013
  • YAP (Young Athletes). Miðar að því að efla hreyfifærni barna með sérþarfir. Verkefnið hófst á Íslandi 2015, hægt að lesa meira hér
  • „Unified Schools“. Samstarf við skóla á öllum skólastigum, innleiðing hófst 2024, hægt að lesa meira hér
  • „Unified Media Team“. Nýjasta verkefnið og tengist það heimildarmyndinni Sigur fyrir sjálfsmyndina

Heiti samtakanna „Special Olympics“ er alþjóðlegt og aldrei má þýða þetta heiti.

Sækja skyldar greinar
Load More By Thelma Grétarsdóttir
Load More In 2. TBL. 2025
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Fram byrjar með hjólastólarugby

Í haust mun Fram bjóða upp á hjólastólarugby og verður fyrsta æfingin þriðjudaginn 16. sep…