Heim 1. tbl. 2024 Ómetanlegur stuðningur ÍSÍ og UMFÍ við verkefnið„ALLIR MEГ  

Ómetanlegur stuðningur ÍSÍ og UMFÍ við verkefnið„ALLIR MEГ  

14 min read
Slökkt á athugasemdum við Ómetanlegur stuðningur ÍSÍ og UMFÍ við verkefnið„ALLIR MEГ  
0
612

Við sem störfum í íþróttahreyfingunni eigum það sameiginlegt að hafa áhuga á íþróttum. Íþróttasamband fatlaðra, Special Olympics á Íslandi og aðildarfélög ÍF voru sett á fót til að koma til móts við hóp íslenskra, barna, ungmenna og fullorðinna sem þrátt fyrir áhuga á íþróttum fengu ekki tækifæri eða gátu ekki nýtt þau tækifæri sem voru í boði. Það er ekki hægt að skilgreina þennan hóp á einfaldan hátt. Það eina sem sem sameinar er einhverskonar „fötlun“.   Sumir geta tekið virkan þátt í íþróttastarfi með smá ráðgjöf og aðstoð í byrjun, aðrir þurfa meiri aðstoð og margir falla inn í hópinn án aðstoðar.  Þjálfarar innan aðildarfélaga ÍF eru bara venjulegir þjálfarar, með svipaða þekkingu og aðrir þjálfarar almennra íþróttafélaga. Þeir taka á móti öllum iðkendum með það í huga að hver og einn er einstakur, nákvæmlega eins og gildir um aðra hópa. Ef þörf er á aðstoð, þá er hennar leitað og unnið að úrlausn. Eins og hvert annað verkefni.

Á Íslandi hefur íþróttahreyfingin horft til ÍF sem ábyrgðaraðila á tilboðum fyrir þennan hóp. Með verkefninu „ALLIR MEГ er ætlunin að breyta því. ÍSÍ og UMFÍ ásamt ÍF vinna nú saman að því að breyta í jákvæða átt, þeirri stöðu sem uppi er á Íslandi í dag þar sem aðeins 4% fatlaðra barna 17 ára og yngri taka þátt í íþróttastarfi. 

Undirrituð hefur í fjölda ára haft það hlutverk m.a. að sinna nýliðun og þróunarstarfi hjá Íþróttasambandi fatlaðra og Special Olympics á Íslandi. Samfélagslegar breytingar hafa kallað á inngildingu og leitað hefur verið leiða til að efla íþróttastarf, opna aðgengi að nýjum greinum og leita samstarfs við almenn íþróttafélög og sérsambönd ÍSÍ.  Það hefur komið ítrekað fram í samtölum við þjálfara að ákveðin hræðsla er til staðar gagnvart því að taka á móti iðkendum með einhverskonar fötlun. Í samtölum við forsvarsfólk almennra íþróttafélaga kom fram að fáir höfðu hugleitt ábyrgð sína gagnvart þessum hópi. Margir sögðust ekki hafa hugsað út í þetta sem „sitt mál“ og talið eðlilegt að ÍF og aðildarfélög ÍF sæu alfarið um þennan hóp. Þar skipti ekki máli þó aðeins ein grein væri í boði hjá aðildarfélagi ÍF eða jafnvel ekkert slíkt félag til staðar á svæðinu. 

 Það lá nokkuð ljóst fyrir þegar verkefnið ALLIR MEÐ var í undirbúningi að grundvöllur að árangri og jákvæðum breytingum til framtíðar, væri að stórauka og efla samstarf innan íþróttahreyfingarinnar. Sameiginleg ábyrgð þar sem markmið er að gefa öllum börnum tækifæri til að velja þá íþróttagrein sem hugur stendur til.  Að ekkert barn þurfi að upplifa að það sé ekki velkomið og að aðstandendur finni kjark til að taka skrefið og fara með barnið sitt á íþróttaæfingu með jafnöldrum. Að lausna sé leitað til að koma til móts við þá þjálfara sem vilja sinna öllum en þurfa aðstoð. Að horft sé á styrkleika en ekki veikleika og að horft sé til tækifæra og lausna en ekki fyrirframgefinna vandamála. Til að árangur náist var ljóst að tryggja þurfti bakland frá ríki og sveitarfélögum og stuðning við við starf íþróttafélaga 

Verkefnið ALLIR MEÐ sem hófst í janúar 2023 er þriggja ára verkefni sem hefur að markmiði að auka þátttöku fatlaðra barna og ungmenna í íþróttastarfi. Sérstaða þessa verkefnis er það mikilvæga skref sem tekið var þegar ÍSÍ og UMFÍ  sýndu áhuga,  ábyrgð og metnað til að koma til samstarfs við ÍF um þetta mikilvæga verkefni. Það skref að sameina krafta íþróttahreyfingarinnar í þeim tilgangi að ná betri árangri, gjörbreytti allri nálgun á baráttunni við að bæta stöðu þessa markhóps um land allt.

Með tilkomu verkefnastjóra „ALLIR MEГ sem ráðinn var sameiginlega af ÍF, ÍSÍ og UMFÍ var að mínu mati stigið eitt mikilvægasta samfélaglega skref til framtíðar. Á þeim tíma sem liðinn er frá tilkomu verkefnisins hafa verið haldnir óteljandi fundir með íþróttafélögum, sérsamböndum, þjálfurum, sveitarfélögum og öðrum þeim aðilum sem   málið varðar. Sprotaverkefni eru farin af stað eða komin í farveg og margt er að gerast. 

Í lok undirbúningstíma verkefnisins sem stóð yfir frá 2020 var haldin ráðstefna á Hilton Nordica í apríl 2022 þar sem hugmyndafræði verkefnisins „ALLIR MEГ var kynnt. Þar mættu þrír ráðherra þeirra ráðuneyta sem eru bakhjarlar verkefnisins, Mennta og barnamálaráðherra, Félags og vinnumarkaðsráðherra og Heilbrigðisráðherra. Allir ítrekuðu gildi þess að öll börn nytu sömu tækifæra og mikilvægi íþróttastarfsins. Fulltrúi íslenskra sveitarfélaga var með ávarp og forsvarsfólk ÍSÍ, UMFÍ og ÍF tók þátt í panel þar sem horft var til framtíðar. Fulltrúar íþróttafélaga, skóla og sveitarfélaga voru með innlegg, sögðu sögur af vel heppnuðum samstarfsverkefnum og hvöttu fleiri til samstarfs í þágu þessa hóps. Kjarni  allrar umræðu var mikilvægi samstarfs og ábyrgðrar jafnt hjá ríki,  sveitarfélögum og íþróttahreyfingunni þannig að ríki og sveitarfélög tryggi stuðning við íþróttafélög og þjálfara sem eru að framfylgja markmiði verkefnisins „ALLIR MEГ.   

Það tekst ekki að breyta svona málum  með lögum og reglugerðum. Það hefur sýnt sig. Foreldrar þurfa að finna að barnið sé velkomið í íþróttastarf, það gildir um alla foreldra.  Allir geta leitað leiða til að finna lausnir, yfirstíga hindranir og vinna þá vinnu sem þarf til að öll börn séu velkomin í íþróttahreyfinguna. Forsvarsfólk í íþróttahreyfingunni sem horfir á verkefnið „ALLIR MEГ sem verkefni annarra en þeirra, – þar er brýn þörf á hugarfarsbreytingu og fólk þarf frekar að líta í eigin barm og spyrja; Hvað get ég gert?  

Nær undantekningarlaust hefur Valdimar Gunnarsson, verkefnastjóri „ALLIR MEГ  fengið mjög góðar móttökur þegar verkefnið er kynnt. Hann hefur sýnt einstaka elju við að ná til aðila um allt land og það er mikil ástæða til bjartsýni.  Í stýrihópi „ALLIR MEГ eru fulltrúar ÍF, ÍSÍ og UMFÍ og öll erum við mjög bjartsýn á að verkefnið skili árangri.

Um leið og forsvarsfólk ISI og UMFÍ fær innilegar þakkir fyrir þetta mikilvæga samstarf þá eru þakkir færðar til allar þeirra sem hafa verið og munu vinna að framgangi verkefnisins. Gleymum því ekki þegar umræða fer fram um verkefnið „ALLIR MEГ að íþróttastarf er ekki bara æfingar og keppni. Að stíga inn í íþróttastarf getur reynst   árangursrík leið út úr félagslegri einangrun og oft myndast þar dýrmæt vinátta. Enginn á að vera útundan?

Stöndum öll saman, tökum ábyrgð og styðjum af fullum krafti, verkefnið „ALLIR MEГ

Anna Karólína Vilhjálmsdóttir,

Framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi / Þróunarsviðs ÍF

Sækja skyldar greinar
Load More By Anna Karólína Vilhjálmsdóttir
Load More In 1. tbl. 2024
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Special Olympics hópurinn klár fyrir Kraftlyftingamótið 15. nóvember

Dagana 11-16 Nóvember næstkomandi verður heimsmeistaramót í kraftlyftingum haldi…