#AframVeginn er kynningarmánuður ÍF. Hér á hvatisport.is verða daglegar uppfærslur næsta mánuðinn með fjölbreyttu kynningarefni um íþróttir og lýðheilsu fatlaðra á Íslandi. Verum hraust og höldum #AframVeginn í heilsu og hreyfingu.
Áfram Veginn!
Þáttaröðin Ólympíukvöld fatlaðra hefur göngu sína á RÚV í kvöld. Þættirnir eru sambærilegir við Ólympíukvöldin sem voru á dagskrá RÚV síðastliðið sumar. Þættirnir munu gera sögu Ólympíumóts fatlaðra (Paralympics) ítarleg skil sem og þátttöku Íslands í leikunum og stikla á stóru hvað varðar helstu afrek á þessu stærsta afreksíþróttamóti fatlaðra sem haldið er fjórða hvert ár.
Fjöldi afreksmanna, þjálfara, stjórnarmanna og íþróttafréttamanna mun taka þátt í Ólympíukvöldi fatlaðra og eru stjórn og starfsfólk ÍF þess fullviss að þáttaröðin muni varpa öflugu ljósi á það góða starf sem hefur verið unnið hérlendis með íþróttafólki úr röðum fatlaðra.
Sökum aðstæðna útaf COVID-19 er ljóst að ekki verður unnt að halda Paralympic-daginn í Laugardalshöll eins og til stóð þetta árið. Þess í stað mun Íþróttasamband fatlaðra gangsetja kynningarmánuð á www.hvatisport.is
Með kynningarmánuði ÍF á www.hvatisport.is vonumst við til þess að umfjöllunin um íþróttastarf fatlaðra á Íslandi vekji áhuga og tryggi að iðkendur skili sér fljótt og vel aftur inn í aðildarfélögin um leið og hægt verður að gangsetja íþróttastarfið í landinu á nýjan leik.
Starfsemi Íþróttasambands fatlaðra og aðildarfélaganna er afar fjölbreytt og því verður af nægu að taka næsta mánuðinn.
Með vinsemd og virðingu,
Þórður Árni Hjaltested
Formaður Íþróttasambands fatlaðra
Sundleikjadagur IDEAL kominn til að vera!
IDEAL project er evrópskt verkefni sem byggir í grunninn á því að auka hreyfingu einstaklinga með þroskahömlun. Hlutverk Íslands í þessu verkefni var sundíþróttin og að auka hreyfingu barna með þroskahömlun í gegnum sundíþróttina. Hér á landi var settur af stað sundviðburður þar sem börnum á grunnskólaaldri var boðið að mæta í eitt skipti í sund í sínum heimabæ og var viðburðinn kallaður sundleikjadagur IDEAL. Íþróttafræðingur stýrði æfingu með grunnþætti sundíþróttarinnar að leiðarljósi. Afreksmanneskja í sundi sem sjálf er með þroskahömlun var fengin til að aðstoða í sundlauginni og segja frá sinni reynslu af sundíþróttinni. Viðburðurinn gekk vel en alltaf er hægt að bæta í og gera meira.
Markmiðið er að halda verkefninu gangandi hér á landi með endurteknum sundviðburðum þar sem sundíþróttin verður kynnt fyrir þeim einstaklingum sem vantar aukna hreyfingu í sinn lífstíl og þeirra sem hafa áhuga á sundi. Verkefnið er unnið í samstarfi við Íþróttasamband fatlaðra og aðildafélög innan þeirra raða sem eru með sundþjálfun fyrir börn og ungmenni.
Sundviðburðir IDEAL snúast um að kynna sundíþróttina fyrir börnum með þroskahömlun á öllum aldri. Dagskrá sundleikjadags IDEAL snýst að miklu leiti um fræðslu og kynningu á því starfi sem nú þegar er verið að vinna innan aðildarfélaga Íþróttasambands fatlaðra. Einnig að koma upplýsingum um æfingartíma, staðsetningar og tengiliði til þess að komast á sundæfingu hjá félagi í heimabyggð eftir að viðburðinum lýkur.
Sundleikjadagur IDEAL 2019 var haldinn í nóvember, planið var að endurtaka viðburðinn nú í lok árs 2020 en vegna aðstæðna verður honum frestað um ár. Árið 2019 var frumraun í viðburðum sem þessum og var sá viðburður smár en vonast er til að ná til enn fleiri einstaklinga árið 2021 með ennþá umfangsmeiri sundleikjadags IDEAL.
Þeir sem vilja fræðast nánar um IEDAL verkefnið geta haft samband við undirritaða á Gudmunda11@ru.is
Með von um að sjá sem flesta í sundlauginni að ári.
Guðmunda Gestsdóttir fyrir hönd IDEAL project
Sýningar hafnar á Ólympíukvöldum fatlaðra
Þáttaröðin Ólympíukvöld fatlaðra hóf göngu sína á RÚV í gærkvöldi en um er að ræða fimm þátta seríu um sögu Ólympíumóta fatlaðra (e. Paralympics).
Gestir fyrsta þáttar voru íþróttakempurnar Jónas Óskarsson, Sigurrós Ósk Karlsdóttir, Haukur Gunnarsson og Lilja María Snorradóttir ásamt Sveini Áka Lúðvíkssyni fyrrum formanni og núverandi heiðursfélaga Íþróttasambands fatlaðra.
Fyrsti þátturinn sem fór í loftið í gær er aðgengilegur hér.
Aldarfjórðungur og hvergi nærri hætt
Samstarf Össurar og Íþróttasambands fatlaðra á sér 25 ára farsæla sögu sem styrkist með hverju ári. Nýverið var gengið frá áframhaldandi samstarfssamningi til næstu fjögurra ára og eru spennandi tímar framundan. Helgi Sveinsson spjótkastari stefnir ótrauður á Ólympíumót fatlaðra í Tokyo sem allir vona að fari fram á næsta ári og Hilmar Snær Örvarsson skíðakappi stefnir hraðbyr að vetrarleikunum í Beijing árið 2022. Þá eru ótalin fjölmörg önnur mót, stór og smá, sem afreksfólkið okkar bæði hér á Íslandi og út um allan heim mun taka þátt í á næstu árum.
Við hjá Össuri höfum lagt okkur fram við að styðja við bakið á aflimuðum íþróttamönnum víðs vegar um heiminn og sjá til þess að þeir geti notast við framúrskarandi stoðtæki, bæði í keppni og daglegu lífi, sem hjálpa þeim að ná markmiðum sínum. Meðlimir í “Team Össur“ keppa í ýmsum íþróttagreinum og uppskeran á undanförnum árum hefur verið afar góð. Margfaldir heims- og Ólympíumótsmeistarar þar á ferð. Um þessar mundir eru um 20 meðlimir í Team Össur sem bíða spenntir eftir að æfinga- og keppnisdagskráin komist í eðlilegra horf og vonum við öll að þau fá tækifæri til að sýna hvað í þeim býr á Ólympíumóti fatlaðra í Tokyo á næsta ári.
Á næstu vikum mun RÚV sýna metnaðarfulla þáttaröð um sögu Ólympíumóta fatlaðra (e. Paralympics) þar sem bestu afrek og helstu minningar keppenda, þjálfara og annarra munu birtast landsmönnum. Undanfarin ár hefur orðið mjög jákvæð þróun hvað varðar sýnileika íþróttafólks sem glímir við líkamlega fötlun. Að hafa slíkar fyrirmyndir fyrir augum er liður í því að fá fleiri úr röðum fatlaðra til að stunda hreyfingu og íþróttir enda vitum við hversu góð áhrif slíkt getur haft bæði á líkamlega og andlega heilsu.
Við sem störfum hjá Össuri erum svo lánsöm að fá að kynnast hæfileikaríkum einstaklingum um allan heim sem eru að gera magnaða hluti. Þáttaröðin á RÚV mun vonandi auka vitund almennings um þá fjölbreyttu möguleika sem standa fötluðum til boða hvað varðar íþróttaiðkun.
Össur er stoltur bakhjarl Íþróttasambands fatlaðra og við hlökkum til samstarfs komandi ára.
Edda Heiðrún Geirsdóttir,
Forstöðumaður samskiptasviðs Össurar hf.