
Íslandsmótið í höggleik 2025 hófst í morgun og fer fram á Hvaleyrinni hjá Golfklúbbnum Keili. Völlurinn er talsvert breyttur og á meðan móti stendur er hann lengsti völlur landsins af öftustu teigum. Nánar er fjallað um það hjá vefsíðunni Kylfingur.is
Fyrrum afreksskíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson er skráður til leiks á mótinu en á sínum tíma var hann á meðal fremstu ParaSkíðamanna heims þar sem hann keppti í alpagreinum, svigi og stórsvigi. Hilmar tók þátt á tvennum VetrarParalympics fyrir Íslands hönd árið 2018 og 2022 en er nú mættur af krafti í golfið og það ekki á sínu fyrsta Íslandsmóti en hann hefur áður tekið þátt og m.a. komist í gegnum niðurskurðinn.
Hilmar Snær hefur leik kl. 14.53 í dag á Hvaleyrinni og með honum í holli eru Magnús Yngvi Sigsteinsson GKG og Fannar Ingi Steingrímsson úr Golfklúbbi Hveragerðis en sjálfur leikur Hilmar Snær fyrir GKG. Hægt er að fylgjast með stöðunni hér á heimasíðu golf.is
